mánudagur, febrúar 20, 2006

FTN-baráttutónleikar á miðvikudag !!!!

Félag tónlistarnema efnir til styrktar og baráttutónleika miðvikudaginn 22. febrúar á NASA við Austurvöll.

Fram koma:

Stuðmenn
Páll Óskar og Monica
Diddú
Tómas R. Einarsson; ásamt Óskari Guðjónssyni o.fl.
Benni Hemm Hemm
Ragnheiður Gröndal
Reykjavík Beat Generation, Börkur og Daði
Kristjana Stefánsdóttir
B3 tríó, Ásgeir Ásgeirsson, Eric Quick og Agnar Már Magnússon
Hilmar Jensson
Jón Páll Bjarnason ásamt nemanda úr FÍH
Bardukha, Birgir Bragason og co.
Jeff Who

Miðaverð 700 kr.

Húsið opnar kl. 20, tónleikarnir hefjast kl. 20:30.

Félag tónlistarnema er nýstofnað hagsmunafélag sem ætlað er að gæta réttinda tónlistarnema. Tónlistarnemum er stórlega mismunað til tónlistarnáms eftir aldri og búsetu. Sveitafélögin hafa sett fram þær takmarkanir að þau greiða ekki með þeim nemum sem eru yfir 25 ára aldri (27 ára fyrir söngnemendur með lögheimili í Reykjavík). Einnig hefur samband sveitafélaga höfuðborgarsvæðisins ákveðið aðrar upphæðir kennslukostnaðar sem standast ekki samanburð við þær upphæðir sem Menntaráð Reykjavíkurborgar hefur reiknað út sem raunkostnað við kennslu nemanda eftir stigi og skóla. Félagið hefur lagt fram stjónsýslukæru á hendur Reykjavíkurborg og Sambandi Sveitarfélaga Höfuðborgarsvæðisins og mun hagnaður tónleikanna fara í málskostnað félagsins.

Við hvetjum alla til að mæta og styðja við bakið á íslensku tónlistarlífi!!

Stjórn FTN

sunnudagur, febrúar 19, 2006

vesen vesen vesen !

Endalaust vesen. Nú er ég búin að pósta sömu færsluna tvisvar, og tvisvar hefur hún dottið út. Auk færslunnar sem kom á eftir. Þær færslur eru algjörlega týndar, tröllum gefnar og greinilega horfnar til veiðilendanna eilífu. Ég hinsvegar, er í fýlu og mun því ekki blogga fyrr en sú fýla er horfin. Sem verður kannski um næstu helgi, en tæpast fyrr.

mánudagur, febrúar 13, 2006

Ojæja. Kannski var ég of dómhörð í gær og einblíndi staðbundið á mótmælin í stað þess að horfa á þau í heild (skoðanir mínar þessa stund litast af dagblaðalestri). En ég bara hrekk í einhvern gír þegar mér finnst fólk vera setja sjálft sig á hærri hest en samferðafólk þess. Kannski er þetta fólk ekkert að setja sig á hærri hest en ég, eða kannski áttar það sig ekki á því að það særir mig þegar mér finnst vera talað niður til mín eða í umvöndunartón við mig, fullorðna manneskjuna. En hvort sem ég hef rétt eða rangt fyrir mér, þá verð ég eiginlega bara að fá að vera dómhörð og pústa út mínum pirringi, og fá þá frekar mótrök í staðinn. Og hananú.

Þetta voru morgunþankar eftir allt of lítinn nætursvefn, og síðdegið mun leiða [mér] í ljós hvort ég er algjörlega úti á grein með þessa færslu.

sunnudagur, febrúar 12, 2006

trúarbrögð vs. menning

Óeirðir keyra um þverbak í Mið-Austurlöndum. Vestrænar þjóðbúar ýmist með eða á móti birtingu myndanna sem kveiktu bálið. Í Mogganum í dag birtist bréf frá meðlimum starfshóps sem stuðlar að því að efla góð samskipti kristninnar/þjóðkristinnar við önnur trúarbrögð og stuðla að gagnkvæmum skilningi. Í því bréfi segir orðrétt:
"Þótt virða beri bann múslima við teikningum af Múhameð spámanni er ljóst að hörð viðbrögð þeirra stafa fyrst og fremst af þeirri neikvæðu mynd sem dregin er upp af þeim og trú þeirra með umræddum teikningum."
Halló!! We are way beyond that! Ósætti og reiði danskra múslima stafaði fyrst og fremst af ofanskrifuðu. Ósætti múslima sem búsettir eru í Mið-Austurlöndum stafar fyrst og fremst af einhverju allt öðru. Ég er helst á því að vandamálið liggi í hinum fjarlæga óvini (þeir múslimar sem búa á Norðurlöndum og í V-Evrópu virðast almennt líta mun raunsær á málið). Óvinur sem maður getur barist gegn er góður til að finna tilgang með eigin tilveru. Sameiginlegur óvinur er frábær til að sameina þjóð eða menningarhópa og ekki spillir fyrir að hann sé svo fjarlægur að það séu hverfandi líkur á að maður nokkurntíman kynnist einhverjum úr hans hópi. Fyrir mörgum árum gluggaði ég í bók sem fjallaði um Helförina sem nazistar stóðu fyrir á sínum tíma. Þar var m.a. frásögn konu sem hafði verið í barnaskóla þegar áróður gegn gyðingum var færður inn í daglegt líf Þjóðverja. Hún sagði frá því að þau hefðu öll í bekknum/skólanum sameinast í þeirri sannfæringu að gyðingar væru óvinurinn, að þeir væru skítapakk og illgjarnir upp til hópa (ja, eða eitthvað í þá áttina). Mesta sjokkið kom svo þegar þau áttuðu sig á því að nokkur bekkjasystkina þeirra væru gyðingar; þeim hafði alltaf verið kennt að líta á gyðinga sem "þá gegn okkur" en höfðu ekki áttað sig á að þeir voru líka "einhverjir af okkur".
Eins og Laufey benti á í kommenti hér þá er það fremur mótsagnakennt að vera að beita ofbeldi og skemmdarverkum til að mótmæla því að Múhameð sé bendlaður við hryðjuverk. Því tel ég þessa fullyrðingu stuðningshópsins ranga (eða out of date hvað það varðar). Þegar fólk slær svona löguðu fram finnst mér nánast eins og það sé að hvítþvo sjálft sig af öllum fordómum og neikvæðni, og mér finnst nánast eins og svona bréf sé að segja "Við skiljum alveg út á hvað þetta gengur og Við skiljum alveg að fólkið sem er svona reitt sé svona reitt. Ef ykkar álit, skoðanir eða tilfinningar stangast á við skoðanir fólksins sem er svona reitt þá verðið þið bara að láta af þeim."
Og nú spyr maður sig: Getur verið að fólk þar eystra skorti eitthvað annað uppbyggilegt til að beina kröftum sínum að? Nú eru danskir múslimar (og múslimar víða, m.a. hér á landi) að eyða miklu af sínum kröftum í að sýna fram á að múslimar séu ekki alslæmir og að óeirðirnar séu ekki dæmigerðar fyrir múslima, hverra spámaður Múhameð boðaði víst frið og það að bjóða hina kinnina. Kröftum og orku sem það góða fólk hefði vafalaust getað eytt í eitthvað annað skemmtilegra.

Það sem okkur vantar miklu fremur er starfshópur sem stuðlar að því að efla samskipti milli lífsgilda og menningasvæða, og stuðla þar að gagnkvæmum skilningi. Og mér þætti alls ekki slæmt ef Norðurlöndin tækju sig til og reyndu að koma slíku á.

föstudagur, febrúar 10, 2006

lengstu orðin

Í Heimsmetabók Guinness [fyrir árið] 2006 má finna dæmi um lengstu orð í heimi. Þar er ekki að finna okkar margsagða Vaðlaheiðivegavinnu... / Holtavörðuheiðivegavinnu... en hinsvegar mátti sjá orð á borð við :
Kinderkarnavalsoptochtvoorbereidingswerkzaamheden (hollenska, 49 stafir) = forvarnaraðgerðir vegna kjötkveðjuhátíðarskrúðgöngu barna.
Ætli það sé oft notað? Eða þetta?
Nordöstersjökustartilleriflygspaningssimulatoranläggningsmateriel- underhållsuppföljningssystemdiskussionläggsförberedelse- arbeten (sænska, 130 stafir) = Undirbúningsvinnuframlag fyrir umræður um um viðhaldskerfi til stuðnings við efni könnunarflugstækis stórskotaliðsins við norðausturhluta Eystrasaltsstranda.

Annar gullmoli; í bókinni Ripley's Believe It or Not! - 29th series (útg. 1978) má sjá orðið
NOOWOMANTAMOOONKAUUNONNASH, sem á tungumáli Algonquin-Indíána þýðir ást. Væntanlega eitt lengsta orðið með styztu þýðinguna, en orðið með lengstu þýðinguna (miðað við lengd orðsins sjálfs) er mögulega MAMIHLAPINATAPAI = horfandi hvort á annað, hvort um sig vonandi að hitt geri eitthvað sem bæði þrá en vilja helst ekki gera (fuegíska, töluð í Argentínu og Chile). (Síðasta orðið gróf ég einhversstaðar upp þegar ég var 15-16 ára, Kristín hefur það mögulega í fórum sínum líka)

fimmtudagur, febrúar 09, 2006

Tillitssemi og gagnkvæmur skilningur

... eru orð mánaðarins, að mínu mati.
Óróinn í Mið-Austurlöndum við það að keyra um þverbak. Danskir múslimar safnast saman til að mótmæla aðförunum og reyna að biðla til Austur-Evrópskra múlima að láta af ofstækiskenndri og ofbeldisfullri hegðun, nú sé komið nóg.

Það er alveg skiljanlegt að múslimum sárni að viðhöfð sé hegðun sem þeim þeim finnst vera guðlast eða þar um bil. Það er líka alveg skiljanlegt að kristnir menn og aðrir sem ekki aðhyllast islam skilji ekki þessa reiði múslima, því myndbirting af spámönnum kristni og fótum/höndum Jahve (guðs gyðinga og kristinna) tíðkast hér eftir behag. Það að láta ekki í minni pokann fyrir tilfinningasemi aðfluttra þjóðfélagshópa er skiljanlegt í ljósi þess að hvert land vill fyrst og fremst viðhalda eigin menningu og eigin siðum, og ætlast til að innflytjendur og þeirra afkomendur aðlagist því þjóðfélagi sem þeir flytjast til. Persónulega finnst mér þetta mjög réttmæt tilætlunarsemi. En auðvitað verður líka að virða siði og venjur aðfluttra, vanalega eru þetta siðir og viðhorf sem liggja djúpt í uppruna fólks og því sem fólk telur rétt verður ekki breytt með einu pennastriki. Virðing fyrir siðum aðfluttra má þó ekki hefta menningu og siði viðtökulandsins á sama hátt og ef maður flytur inn á heimili annarra þá verður maður að fara eftir settum reglum þar á bæ, t.d. getur maður ekki gert þá kröfu að fá að reykja í stofunni á þeim forsendum að því sé maður vanur, eða að slökkt verði á öllum sjónvarps- og útvarpstækjum og umgangi haldið í lágmarki eftir kl. 22:30, því þá fari maður, sem sá aðflutti, að sofa. En auðvitað er í flestum tilvikum hægt að komast að samkomulagi með gagnkvæmri virðingu og tilraunum til skilnings. Það sama gildir um þjóðfélagsbrot.

Það sem mér hefði þótt rétt í stöðunni þegar upp kom sú staða að múslimum sárnaði það að þær myndir sem birtust í Jótlandspóstinum sýndu múslima sem hryðjuverkamenn og tengdu þeirra helsta spámann við fjöldadráp, hryðjuverk og aðra hegðun sem þykir afar neikvæð á Vesturlöndum, að þeir hefðu mótmælt á yfirvegaðan hátt í fjölmiðlum og að Jótlandspósturinn hefði á móti skýrt sína hlið á málinu, en jafnframt viðurkennt að þeir hefðu ekki áttað sig á þessum menningarárekstri og lofað því að hafa þetta framvegis í huga.
Þegar fólk flyzt búferlum til annara menningarsvæða getur það heldur ekki gengið út frá því sem vísu að viðtökulandið sé alfrótt um siði þess og gildi.

Árið 2000, á afmælisári kristnitökunnar, var goðalíkneskjum kastað í Goðafoss sem táknræn minning þess er Ísland gekkst undir siðbreytingu. Okkur sem aðhyllumst ásatrú sárnaði sú goðgá, því í okkar huga er þetta ekkert nema guðlast byggt á skilningsleysi og vanhugsun. En ekki fórum við með reiddum hnefum og í bardagahug að brenna kirkjur eða ráðast á presta og guðfræðinema. Við mótmæltum í fjölmiðlum og skýrðum mál okkar, þó líklega hafi sú umræða ekki farið hátt.

miðvikudagur, febrúar 08, 2006

Elskum við sápuóperur eða er það goðsögn?

Eins og kannski flestir, þá á ég mér mína uppáhalds sjónvarpsþætti. Flestir þeirra eru leiknir en þó eru einn til tveir sem flokkast líkl. undir raunveruleikasjónvarp.
Fyrrnefndu þættirnir eru Judging Amy, Bráðavaktin, C.S.I. og Law & Order (- SVU, sérstaklega). Hinir síðarnefndu eru Dr. 90210 á stöðinni E! og einhver bráðamóttökuþáttur sem ég rekst stundum á á vappi mínu um sjónvarpsheima, annaðhvort á Reality TV eða Discovery. Allir þessir þættir eiga það sameiginlegt að fjalla um starf og starfsvettvang aðalpersónanna, og mér finnst það æðislegt, jafnvel þó ég geri mér fulla grein fyrir að kannski eru uppákomurnar í leiknu þáttunum uppspuni frá rótum að enda, samsettar og ýktar til að skapa samúð og kveikja á tilfinningaflæðinu og adrenalíninu. Það sem mér finnst óskiljanlegt er allur þessi tími sem fer í einkalíf aðalpersónanna, sérstaklega þegar líða tekur á seríuna. Hverjum er ekki sama þó Amy Gray hagi sér eins og smákrakki í samskiptum við fjölskylduna eða þó bróðir hennar sé í sífelldri persónuleikakrísu og geti ekki skrifað bókina sína? Hverjum er ekki sama hvort þessi eða hinn læknirinn á E.R. sé að slá sér upp með einhverjum kandídat utan vinnutíma? Eða bara almennt hvað þessar persónur eru að gera í sínum einkatíma? Mér finnast C.S.I. og L&O hafa sloppið hvað best út úr þessu. Ég vil bara sjá vinnubrögðin, ég vil sjá hvað gerist á vinnustaðnum og sem mest lítið annað. Því út á það gengur titill þáttanna hefði ég haldið. Annað er með Friends, Sex and the City, Everybody loves Raymond og fleiri þætti. Þeir þættir bera ekki titla sem gefa í skyn neitt annað en persónuleg sambönd við annað fólk og þar væri því væntanlega ekki vel tekið ef sífellt stærra hlutfall hvers þáttar væri tengt starfsvettvangi viðkomandi.

Það versta er að nú virðist þetta vera að smitast yfir á "raunveruleikaþættina". Dr. 90210 er lýtalækningaþáttur og þar er sýnt frá og talað við fólk sem ætlar í lýtaaðgerð hjá einum af x mörgum læknum í Beverly Hills. Áhorfendur fá að fylgjast með því þegar læknirinn skoðar viðkomandi fyrir aðgerð, aðgerðinni sjálfri (hvað er gert, hvað er fjarlægt og allt hvað eina!) og svo endurkomutíma þegar umbúðir eru teknar og breytingin sést. Svo inn á milli koma reglulega skot þar sem sjúklingurinn eða læknirinn segir sitt álit á aðgerðinni (eða fyrirhugaðri aðgerð) og hvað þeim fannst um árangurinn. Gott mál, maður hefur fengið meiri dýpt í málið og nálgast viðfangsefnin persónulega. Allir kátir. En nei, því lýkur ekki þar. Allt of mikill hluti hvers þáttar gengur út á að sýna persónulegt líf læknanna, tala við eiginkonur þeirra og fá þær til að segja frá heimilislífinu og guð-má-vita-hverju. Og nú spyr ég eins og áður: Hverjum er ekki sama hvort Dr. Rey fær sitt 3ja barn eins og hann vill eða hvort hann fær hund í staðinn, eða hvernig eiginkonu einhvers annars læknis tekst að standa sig í tilraunaeldamennsku, eða hvernig brúðkaupsskipulag 4. árs nema gengur fyrir sig? Mannlega hliðin?!? BAH! Maður getur bara sagt sér það sjálfur að þau eigi sína mannlegu hliðar, sorgir og gleði eins og við hin.

Hvað titil færslunnar varðar:
Goðsögn, í íslenskri þýðingu enska orðsins "myth", sem kallast líka mýta. Mér finnst það orð bara ljótt í ritmáli.

laugardagur, febrúar 04, 2006

Júrassic-sýn

Mikið hefur verið skrifað og skrafað um lag Silvíu Nætur sem "lak" á netið og spurning hvort það lag eigi að fá að halda áfram í forkeppni.
Auðvitað eiga sömu reglur og viðbrögð að gilda um alla keppendur, og það er vitað mál að svona lög vinna á við 2. eða 3. hlustun svo Silvía hefur fengið svínslegt forskot á aðra. Eeeeen. Lagið er fyndið. Lagið er brandari. Mér finnst að við ættum að hafa það yfirlýsta stefnu okkar [Íslendinga] að senda furðulög til Júróvisjónþátttöku í allavega annað hvert skipti. Skítt með það þó við komust ekki á "Topp 25", ég held að við fengjum miklu meiri athygli út á svona grín en einhverjar hálf-glataðar tilraunir til sigurs hverju sinni. Því aftur og aftur sendum við út hálfvolg lög sem stefna á það eitt að vekja athygli margra milljóna án þess að vera almennilega "íslensk" eða sérstæð að neinu leiti. Þjóðarsálin er kaldhæðin og aðhlægin. Af hverju ekki að gera út á það? Hverjum er ekki sama þó við vinnum ekki, hvar ættum við svosem að halda keppnina? Af hverju ekki að skapa okkur orðstír sem skemmtilegt og fríkað þjóðarbrot í fjarska? Gerum út á Íslendinga sem áhugavert skoðunarefni. Safaríferð?!? Stærsti dýragarður Evrópu?! Nei, komdu frekar til Íslands og fylgstu með Íslendingum í sínu náttúrulega umhverfi!!

Við höfum ræktað hæfileikafólk á óskaplega mörgum sviðum og höfum skapað okkur orðstír sem vel lesin, skapandi og dugleg þjóð, mun það eitthvað gera fyrir þjóðarstoltið að hafa eina Júróvisjónkeppni í ferilskránni? Meðaleinkunin okkar er hvort eð er ekki svo glæsileg.

föstudagur, febrúar 03, 2006

Lista-líf

Stundum finnst mér eins og líf mitt snúist um skipulag og listaskrif. Og ekkert annað. Þetta er endurtekinn vítahringur sem hefst á því að einhvern daginn ákveð ég að vera óskaplega skipulögð og koma minni nánustu framtíð í gott horf, á skipulagðan hátt. Og ferlið hefst á því að ég sest niður og skrifa lista yfir það sem ég þyrfti að gera, ætla að gera og myndi hagnast á að gera. Í lok dags er ég svo komin með ítarlegan og greinargóðan lista og fer sátt að sofa, fullviss um að "nú sé þetta allt að gerast" og með góðu skipulagi séu mér allir vegir færir. Morguninn eftir vakna ég upp með ítarlegan og ofurlangan lista á náttborðinu. Allt of langan. Svo ég tek til við að endurskipuleggja listann; para saman atriði sem vinna má í tengslum hvort við annað, taka út atriði sem skipta minna máli, raða í hóp litlum atriðum sem hægt er að gera á skömmum tíma og þá jafnvel samtímis og bæta inn öðrum stærri sem mér finnast skipta máli þá stundina en ég hef greinilega gleymt við fyrstu listaskrif. Í lok dags sit ég uppi með ítarlegan, greinargóðan og vel skipulagðan lista - en allt á listanum ógert. En ég tel mér samt trú um að ég verði í góðum málum daginn eftir, því nú sé listinn svo vel skipulagður. Þegar ég svo vakna á þriðja degi ferlisins rennur það upp fyrir mér að listinn er ekki bara ítarlegur, greinargóður og vel skipulagður, heldur líka oooofur-langur. Og það veldur mér kvíða. Hvaða atriði á ég að tækla fyrst? Eitt af þessum stóru? Eða eitthvað af þessum litlu svo að listinn styttist? En þá eru bara stór og mikil og feit og tímafrek og orkutæmandi atriði eftir. Hvað gera bændur þá? Þeir sér kaffi og gera eitthvað allt annað en það sem stendur á listanum til að bægja frá óttanum við allt það sem framundan er.
Þetta er að vísu fremur ýkt lýsing, en svona finnst mér þetta oft vera;
Líf mitt þessa stundina = atriði 1-12, framtíðarfræin = atriði 13 og uppúr.

En það góða við þetta er að þetta ástand á sér heiti og þar af leiðandi skilgreiningu. Sem þýðir að það er að öllum líkindum hægt að sigrast á þessu eða a.m.k. að nýta ástandið sér til framdráttar. Fræðiheitið mun vera framkvæmdafóbía! [Eða e-ð álíka, ég spyr Finnboga út í það við tækifæri, hann nefndi þetta fyrstur manna í mín eyru]. Meðferð gegn slíkri fóbíu byggist á, ótrúlegt en satt, listagerð. Efst skal maður skrifa atriði sem skiptir í raun og veru litlu máli hvað framvindu annara hluta varðar, en lítur engu að síður út fyrir að vera mjög mikilvægt og tímafrekt atriði. Þá munu öll önnur atriði blikna í samanburði og töluverðar líkur eru á því að maður drífi þau af til þess að slá þessu feita og fyrirferðamikla atriði á frest.
Dæmi um slík upphafsatriði gætu verið bílskúrstiltekt; jólaskrautsupphengi /-niðurtekt; skráning á bókaeign; hringja í ömmu og biðja um fyrirframgreiddan arf. Minna máli skiptir hvort maður hafi yfirhöfuð ætlað sér að framkvæma þetta "efsta atriði", svo lengi sem það er nógu fráhrindandi.Úr dagbókarfærslum Hannesar afa:

miðvikudagur 19. apríl 1922 :
Ms. Goðafoss kom til Hva. kl. ca. 5 árdegis. Fór aftur um kl. 9 árd.
K.V.H. fær 1100 kg strausykur og 6 poka kaffi. Var þegar gerður aðsúgur mikill að vörum þessum.
Veðrið : Sunnan stormur

föstudagur 21. apríl :
Þreifandi sjóð-bullandi vitlaus ös. Allir að sækja kaffi, sykur og tóbak - og beiddu um brennivín - og fleiri nauðsynjar.
Goðafoss sagður á Ísafirði.
Veðrið : Sunnan storum. Þiðnar mikið.

Auglýsingar

Hjá undirskrifuðum er til sölu ,,Leiðarvísir til að þekkja Einkenni á mjólkurkúm með 69 myndum.'' Kostar í bandi 40 sk. Rit þetta er þýðt úr danskri bók sem gefin var út í annað sinn 1849, en þær útgáfur báðar voru að mestu þýðing af franskri bók eptir þann alkunna kúafræðing Genon á Frakklandi.
J. J. Borgfirðingur. Friðbjörn Steinsson.

Svo var auglýst í tímaritinu Norðri þann 19. nóvember 1859

einu sinni var...

9. febrúar
Vöruverð hjá Sig. Pálmasyni
Rúgmjöl 0/50 pr. kg.
1/1 Riis 1/05 pr. kg.
Melis kg 1/35
Strausykur 1/25 pr. kg.

10. febrúar
Fréttist um verð á vörum hjá Kf. Húnvetninga Blönduósi
Rúgmjöl 0/50 pr. kg.
Haframjöl 0/75 pr. kg.
Hveiti 0/94 pr. kg.
1/1 Riis 0/74 pr. kg.
Kaffi 2/65. Sykur með sama verði og hjer.

Veðrið : Sunnan hlýnindi. Hægð. Auð jörð.

Einnig er fært inn laugardaginn 6. maí :

Almennur hreppsfundur á Hvammstanga til að ráðstafa ómögum
- og skrafa um fleira -

Svo reit hann afi minn, kaupfélagsstjórinn, í dagbókina sína árið 1922.

þriðjudagur, janúar 24, 2006

Þessi lönd hef ég heimsótt :create your own visited country map
or check our Venice travel guide


Það er greinilegt að ég er ekki að standa mig hvað S-Ameríku og Asíu varðar. Glatað, maður.

Spörningar, spörningar. Lífið er ejn stór spörning.
En lífið er líka leikur. Og til að sameina þetta tvennt er hér hinn stórskemmtilegi spörningaleikur sem nú gengur aftur um netið og sameinar alla aldurshópa - brjálað fjölskyldufjör! Ekki missa af því!
Reyndar er mín afsökun fyrir þessari eftirhermu sú að ég asnaðist til að svara spuningum hjá Litla Laufblaðinu og játaði það víst á mig að setja þetta á bloggið mitt, hvort sem hún mun svo skrifa um mig eður ei.

1. Hver ert þú?
2. Erum við vinir?
3. Hvenær hittumst við fyrst og hvernig?
4. Ertu hrifin(n) af mér?
5. Langar þig að kyssa mig?
6. Láttu mig hafa gælunafn og útskýrðu afhverju þú valdir það.
7. Lýstu mér í einu orði.
8. Hvernig leist þér á mig þegar þú sást mig fyrst?
9. Líst þér ennþá þannig á mig?
10. Hvað minnir þig á mig?
11. Ef þú gætir gefið mér eitthvað hvað myndi það vera?
12. Hversu vel þekkirðu mig?
13. Hvenær sástu mig síðast?
14. Hefur þig einhvern tíman langað til að segja mér eitthvað en ekki getað það?
15. Ætlaru að setja þetta á bloggið þitt svo ég geti skrifað um þig?