föstudagur, desember 20, 2002

Uppgjör síðustu daga: Sunnudagurinn 15. des fór að mestu í rúmlegu. Ég gerðist svo djörf að ætla mér að þrífa heimilisbílinn, en eftir að hafa skrúbbað hann með svampi og tjöruhreinsi í 40 mín. fékk svo hrikalegt tak í bakið að ég lá eins og karlæg kerling að mestu leyti eftir það. Á þriðjudag fór ég í stigspróf á píanó og tók 3ja stig. Náði því, guðslifandifegin, og ég þarf ekki að taka fleiri stig á píanó (ekki með söngnáminu, allavega). Á miðvikudag var ég að vinna 8-16, og við Sigga (annar ritari) endurskipulögðum allt inni á vakt, svo að nú finnur enginn neitt nema við. En það er samt betra svona, fólk verður bara að treysta því. Í gær, fimmtudag, opnaði 2. ár í hönnun LHÍ jólabasar á Skólavörðustíg 22 (Gallerí Nema Hvað) til að safna fyrir skólaferð í febrúar, og ég mætti til að spila á hornið og reyna að vekja athygli á okkur. Og einhverjar forvitnar sálir ráku inn nefið. Ég lofaði að koma aftur á Þorláksmessu og stefni að því að æfa mig rétt aðeins fyrir þá spilamennsku, í gær var hálft ár síðan ég spilaði síðast á þetta hljóðfæri og .... Allavega, ég fór líka og bókaði flug í jan./feb. 2004 til London, New York og Aþenu. Flugplanið er því svona : Reykjavík - London - New York - London - Aþena - London - Reykjavík, með mismunandi löngu stoppi á hverjum stað. Í dag ákvað ég að bóna gólfið í herberginu mínu, þrátt fyrir að ástkær móðir mín efaðist um að ég fyndi gólfið yfir höfuð. En eftir smá mokstur fann ég það á botninum á herberginu og eftir það gekk allt vel. Svo, eins og til að verðlauna sjálfa mig (það er ekki fyrir hvern sem er að taka til þarna!) fór ég og keypti mér stafræna myndavél. Sem er, nota bene, enn í pokanum því fólk hefur verið að kvarta yfir því að ég skrifi ekki nóg á þessu blessaða bloggi. Í kvöld verð ég svo líklegast að klára að skrifa jólakort og klára að endurraða í herberginu mínu (og þurrka af!) svo nú er bara að vona að það verði ekkert kvöld.

1 Álit yðar:

At 9/1/18 02:15, Blogger Unknown said...

Not all are true. Everyone has their own way of thinking but I think they have to reconsider. I like to argue for the most accurate results.
http://fivenightsatfreddysplay.com

 

Skrifa ummæli

<< Home