mánudagur, janúar 27, 2003

Ég var að taka eftir því að síðan mín hefur lengst heil ósköp á þverveginn. Mögulega vegna óhóflegs jólaáts en þó er líklega skýringin sú að ég setti inn myndir sem taka mikið pláss. Þannig að gestabókin og tenglalistinn (linkarnir) eru lengst til hægri á síðunni fyrir þá sem nenna að leita. Ég tími eiginlega ekki að taka strax út myndirnar...

sunnudagur, janúar 26, 2003

Kíkti á opnun nýja Barnaspítalans við Hringbraut í dag, mikið er hann flottur! Viðarinnrétttingar og hátt til lofts og mikið rými, og bara helv... hlýlegur. Nú finnst manni bara hálf skítt að fara aftur yfir á sína deild (en það reddast þar sem þetta er síðasti dagurinn). Ætli þá vanti ekki afleysingaritara í sumar? Það hlýtur að vera hægt að sannfæra deildina um að það sé hollt og gott fyrir alla. Ef afleysingaritarinn er ég, þ.e.


Which Personality Disorder Do You Have?

brought to you by Quizilla

Og persónuleikapróf af netinu eina ferðina enn. Ef ég tek nokkur í viðbót get ég örugglega bara búið mér til persónuleika based on my internet results. Jafnvel útbúið sér ferilskrá (CV) með öllum niðurstöðunum. Fínt í atvinnuviðtölin.

Night%20Sky1
Where Did Your Soul Originate?

brought to you by Quizilla

laugardagur, janúar 25, 2003

4 dagar til brottfarar (ef maður telur daginn í dag með). Þetta er allt að bresta á, ekki seinna vænna að byrja að kynna sér gríska stafrófið. Að vísu fæ ég námskeið í grísku þegar út kemur, og að vísu fer ég ekki til Aþenu fyrr en 10.feb., en það verður áreiðanlega brjáluð keyrsla í NY og enginn tími til annars en að upplifa borgina. Maður er óneitanlega farinn að hlakka til, enda búin að vera mikil NY-stemning í skólanum og pælingar og skipulag og skráning á öllu sem þykir áhugavert þar í borg. Bíómyndagláp (allt í nafni hönnunarpælinga) og lestur ferðamannanbóka hefur einkennt vikuna. Já, og verkefnaskil. Mánu- og þriðjudagur fóru í lokaskil á markaðsfræði-samvinnuverkefni Listaháskólans og Háskólans í Rvk. - mikill léttir að vera búin að klára það dæmi. Eins þurfti ég að skila ritgerð í tónlistarsögu á mánudeginum (hálf-crappy ritgerð, ef ég á að vera hreinskilin), mæta í próf sem ég hefði eins getað sleppt, og svo fóru flestar aukastundir vikunnar í að setja upp 16 síðna bækling fyrir föstudaginn (seinni skilaséns, ég náði ekki þeim fyrri sökum.... hmm...). Allavega. Nú getur maður einbeitt sér ótruflaður að brottfararstressi og reddingaráhyggjum.

Jæja, enn ein vikan liðin og vinnuhelgi tekin við. Síðasta vika var að mestu nýtt í að ganga frá lausum endum, falla í tónlistarsögu og hitta fólk sem ég hef ekki hitt lengi. Nú hef ég mestar áhyggjur af því að ég gleymi að gera eitthvað nauðsynlegt, og þurfi svo að reyna að komast á netcafé um mánaðarmótin til að reyna að redda málum í gegnum tölvupóst. Auk þess sem hún pirrar mig óendanlega, vitneskjan um að það sé skítakuldi í New York og að ég þurfi að taka með mér ofurhlý föt sem ég þarf svo ekki að nota í Aþenu, en verð samt að dröslast með milli landa. Að vísu hefði ég ekki viljað komast að því fyrst við komuna til NY að ég hefði betur tekið með mér föðurland & lopapeysu, en samt.... Ég meina, maður er Íslendingur! Hér er alltaf kalt og manni finnst það vera sjálfsögð mannréttindi að þegar maður fer til útlanda, að þar sé hlýrra en hér! Nema náttúrulega að maður sé að fara til Síberíu eða Alaska eða Norður-Noregs.

föstudagur, janúar 17, 2003

Hooligan%20Bear
Which Dysfunctional Care Bear Are You?

brought to you by Quizilla

fimmtudagur, janúar 16, 2003

Og föstudagur rennur upp á morgun. Hvílík gleði. Hvílík spenna. Hvílík dagskrá. Dagurinn lítur nokkurnveginn svona út :
kl.8-12 verkefnaskil og upphenging. Eftir hádegi : hitta HR-stelpurnar til að ræða verkefnið sem við þurfum að skila á mán./þri. kl.13:30 : Jarðarför. Seinnipartinn : Kaffihús með Guðrúnu Ásu til að ræða málin, þ.á.m. Kárahnjúkavirkjun. Við erum ekki á einu máli um það. Kl.20 : Fyrirlestur um rúnir. Kl.22 (líklegast) : Bíó með Hrólfi, þar sem við erum örugglega einu manneskjurnar sem við þekkjum sem hafa ekki séð Lord of the Rings: Two Towers. Hrólfur hefur það reyndar framyfir mig að hafa séð hálfa myndina, en varð frá að hverfa í hléi vegna týnds ættingja. Sem var með honum á myndinni, Nota Bene. Svona fólk myndi týna úr sér heilanum ef það krefðist ekki eggvopns eða heklunálar að ná honum út í gegnum nefið.
Svo eru fleiri falleg verkefni sem bíða manns yfir helgina, t.d. kom það fram í þessum indæla tónlistarsögutíma að hlustunarprófið á mánudaginn n.k. gildir 70 % á móti 30 % ritgerðinni, og að við yrðum að ná heildareinkunn "7" til að ná áfanganum. Mannskemmandi, svona kröfur. Og möppuviðtal á þriðjudaginn í LHÍ. Ofan á allt annað.

Þrátt fyrir að janúar sé rétt að hefjast (svona u.þ.b.) þá eru verkefni skólanna ekkert að hafa hægt um sig. Ég mætti í tónlistarsögu á mánudaginn með hjartað í buxunum, ekki búin að skrifa ritgerðina sem var sett fyrir í byrjun nóvember, en íklædd fögrum fyrirheitum ef ég fengi að skila henni daginn eftir. Þegar það kom í ljós að fleiri voru "ekki alveg búnir..." steig kennarinn á stokk og mælti þau fögru orð: "Þið sem skilið ekki í dag verðið að skila í næstu viku". Og ég hljóp út í nóttina kát og glöð. Með fögur fyrirheit. Og síðan hefur ekkert gerst.

laugardagur, janúar 11, 2003

Og í slíkum góðviðrismánuði sem janúar er, kíkir skuldum vafinn námsmaðurinn á útsölur þessa lands. Með háleit markmið um að kaupa ekki neitt, en eins og þeir segja þá er leiðin til Vítis vörðuð góðum tilætlunum Og síríki námslánaþeginn keypti sér sandala (sem ekki voru á útsölu, en eru nauðsynlegir), þunna peysu og 2 boli. Og beit svo höfuðið af skömminni með því að fara aftur daginn eftir og kaupa meira. Í þetta skiptið var það bara ein flík. Peysa. Svo eyddi aldrei-ánægði-námsmaðurinn föstudagskvöldinu í að sauma rennilás í peysuna. Í dag er ég svo að vinna þannig að ég kemst ekki á útsölur í dag, en ég þarf þó að fara og finna eitthvað handa Kötlu vinkonu í afmælisgjöf. Það afmæli átti sér stað þann 7.janúar, svo ég hef ennþá nokkra mánuði (samkvæmt hefð fær hún aldrei afmælisgjafir frá mér á réttum tíma) en þar sem hún heldur upp á afmælið í kvöld er ég að spá í að drífa í þessu því það virkar svo vel út á við að koma með gjöf á réttum tima. Og það skiptir öllu máli hvað aðrir halda um þig. Annars kemst maður aldrei áfram í lífinu.

fimmtudagur, janúar 02, 2003

26 dagar til brottfarar og maður er byrjaður að skrásetja í huganum það sem á að taka með út. Verst að það er svo mikið nauðsynjadrasl (tölva + aukahlutir + myndavélar + þrífótur + söngnótur, jafnvel línuskautar) sem ég þarf/ætla/skal taka með mér, að það verður mest lítið pláss eftir fyrir nauðsynjavörur eins og föt og skó og yfirhafnir. Ætli maður endi ekki á því að taka með sér eitt sett af aukafötum og þvo oft. Og ganga um nærfatalaus og sokkalaus og vitlaus í 5 mánuði. Annars sit ég núna í vinnunni og reyni að slá eigið met í tölvuleikjum á shockwave.com. Líf mitt er svo ótrúlega viðburðaríkt. Að ég tali nú ekki um mikilvægt.