Þakkir vikunnar fara til Eyrúnar frænku sem lét mér í té símanúmer og heimilisfang vinkonu sinnar hér í Aþenu. TAKK EYRÚN!!
Vegna almenns frídags í gær (40 dagar til páska - upphaf föstu?) var eitthvað ólag á kennslu fyrir helgi, þar sem hefð er fyrir því að sumir kennarar / sum fög taka sér frí fyrir eða eftir þessa 3ja daga helgi, svona til að drýgja hana, og sumir tímar voru kenndir meðan aðrir féllu niður. Ég hafði varann á og mætti hvorki fimmtudag né föstudag.
Ég reyndi annars að gera mér eitthvað til skemmtunar og jafnframt koma einhverju í verk um helgina, en kvef og slappleiki setti smá strik í reikninginn. Fór þó og skoðaði Akropolis á föstudaginn og keypti á leiðinni upp bók um grísku goðafræðina, sem ég er að glugga í núna. Akropolis var mjög áhugaverð (sérstaklega viðgerðirnar sem standa yfir, hehe) og umhverfið fyrir neðan var sumstaðar eins og beint úr ævintýrabók. Kannski var það gróðurmagnið sem maður er ekki alveg nógu vanur, sem villti fyrir um en hvað um það, fallegt var það.
Á sunnudaginn fór ég svo (aftur) í "Kolaportið" í Þisio og sá strax þau reginmistök mín að mæta ekki fyrr (ég mætti seinast kl.10, en nú ekki fyrr en 11), því þarna var svo pakkað að þarna var mannhafið eins og sardínur í risadós, nema hvað að það hreyfðist. Og auðvitað var svo troðið að maður náði ekki auðveldlega að setja á sig nein kennileiti, svo ég var sífellt á taugum með að týnast og rata ekki aftur á lestarstöðina. Sem reyndist svo rétt, ég komst langleiðina, en svo, hvernig sem ég sneri mér og gekk (les:færðist) út um allt, ég gat séð lestarteinana en enganvegin fundið stöðina. Eftir útskýringar frá vinveittum sölumanni með trúðahárkollu kom í ljós að ég hafði gleymt að beygja 20 metrum áður. Og burt komst ég að lokum.
Næsti viðkomustaður var Kifissia (hinumegin í borginni), þar er ríkramannahverfi og ég ákvað að rölta smávegis um og skoða. Stoppaði vísu bara í klukkutíma, allt var lokað og nær ekkert líf á svæðinu, svo sú ákvörðun var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum að fara bara heim og koma aftur einhverntíman seinna.
Í dag, þriðjudag, mætti ég svo í skólann í áfanga sem kennir myndskreytingar við bækur og veggspjöld. Fyrsta verkefnið (sem við verðum reyndar með út önnina) er að myndskreyta heimspekifræðilega bók um tilveru mannsins og guðs og baráttu andans og eitthvað slíkt. Ég efast þó um að ég lesi bókina, þar sem hún fæst ekki á ensku. Bara grísku. Og eins og er hef ég ekki hugmynd um hvað ég er að fara að myndskreyta. En ég get vonandi fengið einhvern til að segja mér aðeins frá bókinni. Þetta kemur allt í ljós. Eftir hádegið fer ég svo í málun/litafræði, ef kennarinn mætir þ.e.a.s. Þetta er allt að koma.
0 Álit yðar:
Skrifa ummæli
<< Home