Og við tók 6 daga helgi.
Fimmtudagurinn 20. var dagur mótmæla. Skólinn var harðlæstur og plagg stimplað af skólayfirvöldum hvatti fólk eindregið til að mæta niður í bæ í kröfugöngu til að mótmæla sprengjuhernaði. Sem mikill friðarsinni, og þar sem ég hafði ekkert annað að gera, gerði ég eins og skólinn og samviskan bauð. Og jújú, þarna voru hinir hefðbundnu ræðumenn og skiltaberar og fólk með flögg og fána og allt sem tilheyrði. Svo eftir ræður og hvatningu og mótmæli og þetta venjulega var lagt af stað niður að sendiráði Bandaríkjanna. Ég verð að viðurkenna að ég nennti ekki að fylgja göngunni nema fyrstu tvo kílómetrana eða svo. Það var svo á leiðinni til baka sem ég áttaði mig á hvað gangan var í raun stór og viðamikil (reyndar var hún 2 göngur sem lögðu af stað frá sitthvorum staðnum en sameinuðust á miðri leið), því þegar ég sneri við voru um 150 metrar af göngufólki fyrir framan mig. Svo gekk ég í allavega korter á móti göngunni, en fyrst þá endaði þessi fólksfjöldi sem myndaði hana. Og þó var töluvert af fólki á leið burt eins og ég.
Föstudagurinn var greinilega líka dagur mótmæla, þó með aðeins minna sniði en deginum áður. Skólahliðið var enn harðlæst með keðjum (sem lokaði þá líka matsal nemenda) og strætisvagnar lögðu niður akstur milli kl. 12 og 16 (ég veit ekki hvort lestirnar gerðu slíkt hið sama). Einhverjar smærri göngur áttu sér stað inn á milli hverfanna en annars flest með kyrrum kjörum. Kórstjórinn þrætti & þrefaði sér/okkur samt leið inn í skólann seinnipartinn til að halda æfingu.
Þriðjud.25. (í gær) var annar af tveimur þjóðhátíðardögum Grikkja (til að halda upp á sigurinn og lausnina frá Tyrkjum einhverntíman í denn). Af því tilefni var frí skólanum og frí í vinnu hjá flestum í gær, og vegna þess að skólayfirvöldum hefur líklega ekki þótt ástæða til að púkka upp á einn skitinn mánudag, þá var bara frí þann daginn líka. Svona til að skeyta saman helgi og frídag.
Af öðrum málum er það að frétta að kór skólans er á leið til Ungverjalands þann 10.apríl. Ástæða fararinnar: Þáttaka í kórakeppni. Og oss hefur hlotnast sá heiður að fá að fara með. Allur ferðakostnaður fyrir utan fæði er greiddur með styrkjum héðan og þaðan. Ekki slæmt! Farið verður með rútu og bát og aftur rútu (og svo líkl. sama fyrirkomulag á leiðini heim) og tekur ferðin hvora leið um einnoghálfan sólarhring. Niðurstaða: 5 nætur í Búdapest og 1 nótt í Vínarborg (Austurríki). Ekki kvarta ég. Svo eru einhverjir tónleikar þarna inn á milli líka, ekki bara þessi keppni. Sem þýðir að ég þarf að fara yfir nokkur önnur grísk lög sem allir kunna nema ég. En það reddast, sagði Íslendingurinn í kviksyndinu.
0 Álit yðar:
Skrifa ummæli
<< Home