mánudagur, apríl 07, 2003

Eitthvað vesen var á tölvunum seinast þegar ég reyndi að blogga (líklegast aprílgabb þar sem þetta átti sér stað á hinum sívinsæla fyrsta degi aprílmánaðar). En ég held að það sé komið í lag núna. Og því er best að halda áfram með skráningu hinna hversdagslegu hluta.

Skóli í dag, og svo ekki aftur fyrr en 9.maí (samkvæmt mínum heimildum). Það er vegna þess að eftir ákveðnar breytingar sem ég gerði á stundaskrá minni, er ég ekki í skólanum nema á mánudögum og föstudögum. Og nú vill svo til að ég verð lögð af stað til Búdapest áður en föstudagurinn næstkomandi rennur upp. Þegar við komum svo til baka þann 19.apríl, verður páskafríið byrjað og því lýkur víst ekki fyrr en 7.maí. Næsti Föstudagur eftir það er þá sá 9. Þetta gríska skólakerfi er frekar furðulegt og mér er það óskiljanlegt hvernig nemendur læra eitthvað, því fyrir utan rúmar 2 vikur í páskaleyfi þá eru 3 mánuðir í sumarfrí auk hinna og þessara frídaga inn á milli, og á þessa stöku frídaga bætist gjarnan við aukadagur öðru hvoru megin. Svona til að gleðja nemendur og kennara.

Mesta gleði vikunnar átti sér stað á föstudaginn þegar ég mætti á kóræfingu og í ljós kom að einn félagi minn þar hafði keypt fyrir mig "usb-lykil", svona 128mb aukadrif (harðan disk) til að flytja gögn á milli tölva (þetta þýðir að ég þarf ekki sjálf að fást við gríska tölvutækjasölumenn). Mig hefur langað í svona töfratæki frá því í byrjun janúar þegar Pósturinn Páll birtist með svona í skólanum og útlistaði alla kosti slíkrar uppfinningar. Með þessu ætti ég að geta flutt gögn frá skólatölvunum yfir í mína, nokkuð sem ég gat ekki áður vegna vöntunar á floppy-drifi í tölvunni minni. Og kátínan skein um alla ganga.

Ég túristaðist um Plaka-hverfið um helgina og naut þess til hins ýtrasta, sérstaklega á laugardaginn. Sama kvöld var svo afmælisveisla eins kórfélagans, og á endanum hékk ég þar til kl.4 um morguninn við að skoða ljósmyndir úr skólaferðalögum ofl. Sem var ekki nærri eins slæmt og það kann að hljóma, bara nokkuð skemmtilegt. Svo á sunnudagskvöldið fór ég í det Danske Institut i Athen og hlustaði á danskan bassasöngvara þruma út úr sér aríum og dönskum lögum. Nokkuð góður, og skartaði einmitt hinni gamalkunnu hefðarklippingu Grand Eyjólfs.

Ætli ég reyni ekki að komast á netið áður en ég legg af stað, en svo verður líklega ekkert bloggað fyrr en eftir 20.apríl.

0 Álit yðar:

Skrifa ummæli

<< Home