fimmtudagur, apríl 10, 2003

Jæja. Við leggjum í 'ann eftir 6 klst. eða svo, og ég er komin með töluverðan fiðring í magann. Ég var alveg búin að gleyma hvað það er gaman að vera með svona hópferða-ævintýra-fiðring. Ég held þó að þetta leggist kannski betur í mig en aðra kórfélaga, margir hafa verið með hina margtuggnu spurningu "Are you ready for Budapest?" á vörunum síðustu vikur. Ég skildi eiginlega ekki spurninguna fyrst, hvort þau væru að spyrja hvort ég væri 110% viss á öllum lögunum ("nei, eiginlega ekki") eða hvort ég væri búin að pakka og ganga frá öllu ("enn síður") en svo rann upp fyrir mér ljósglæta: Það er þessi andlegi undirbúningur! Svona utanlandsför er áreiðanlega meira mál fyrir þeim þar sem mörg þeirra eru að fara út fyrir landsteinana í fyrsta skipti. Allavega tel ég mér trú um það. Því alltaf svaraði ég því játandi hvort ég væri tilbúin. Svona til að vekja ekki grunsemdir. Nú er einmitt skemmtilega stutt á milli punkta hjá mér. Einstaklega óþolandi.
Að auki er kórstjórinn búinn að vara fólk við því að breytt mataræði gæti haft áhrif á meltinguna, það væri því kannski viturlegt að taka eitthvað með sér við niðurgangi. Aftur skildi ég ekki neitt (eru Ungverjar með svona slæmt orð á sér??) en áttaði mig svo á því síðar að flest þeirra eru eflaust ekki vön öðru en reglulegum og heimalöguðum máltíðum, ekki óreglulegu skyndibitafæði í rúma viku. Annað en við fjölförnu Frónbúar (haha!)

0 Álit yðar:

Skrifa ummæli

<< Home