fimmtudagur, maí 29, 2003

Grikkland er land verkfalla. Í þessari viku var loksins aflétt 2ja vikna verkfalli stundakennara. Þeir nýttu sér þessa nútímaaðferð uppreisnar til að mótmæla því hve illa og seint þeir fá borgað. All good comes to those who wait, er sagt, en þeim finnst kaupið greinilega ekki nógu gott til að bíða í 6-10 mánuði eftir því. Skiljanlegt svosem. Í gær voru svo strætóbílstjórar í verkfalli milli kl. 10 og 15, og í næstu viku fara stundakennararnir aftur í nokkurra daga verkfall. Þeir voru víst ekki nógu ánægðir með útkomuna á samningafundinum síðastliðinn þriðjudag. Hvílíkt og annað eins. Og 2 vikur eftir af önninni.

Ég horfði á Eurovision í lélegu sjónvarpi innan veggja heimilisins. Hefði verið til í meiri Eurovision-stemningu, en ég er ekki viss um að hún tíðkist hér. Allavega heyrði ég ekkert minnst á Júróvisjónpartý neinsstaðar. Hvað um það. Ég verð nú samt að lýsa ánægju minni yfir heildarsvipnum á keppninni, sviðið var þrælflott (fannst mér) og standardinn greinilega að hækka hvað lögin varðar. En ástin sveif greinilega yfir vötnum og réði ríkjum, svo við erum kannski ekki komin alla leið. En langleiðina samt. Grikkirnir flestir ánægðir með sitt lag, held ég. Ég fékk eftirfarandi sms frá hérlendum vini mínum: "How dare u! U didn't vote for us!! And to think we had the biggest titted candidacy!!!" Kannski var það bara flytjandinn sem þeir voru ánægðir með.

Þetta var enn ein smáfærslan. Maður verður svo latur hér í tæknileysinu.

föstudagur, maí 16, 2003

Ég hefði ekki trúað að því óreyndu að ég gæti lifað það af að vera í gallabuxum utandyra í sól og 37°C hita. En aðlögunarhæfni Íslendinga er ótrúleg, og maður bara venst því að líða illa. Þægindum fórnað á altari snyrtimennskunnar. Svo er svo mikill raki í loftinu að maður veit ekki almennilega hvort maður er kófsveittur eða ekki.

Svo er það auðvitað eitt og annað sem kemur mér á óvart, og alltaf jafnmikið á óvart. Those small things. T.d. það að hver einasti Grikki sem ég hef séð hella bjór í glas, hellir honum beint ofan í glasið (eins og gosi) en hallar ekki glasinu eins og við veraldarvönu Íslendingarnir. Grikkir eru greinilega meira froðufólk (froðusnakkar) en við. Mér finnst þetta óendanlega áhugavert. Og það heyrir til undantekninga að sjá þá nota hníf við matborðið. Ef maturinn er hrísgrjón eða annað lauslegt styðja þeir stundum við hann með brauðbita eða bara moka matnum upp í sig með gafflinum. Og bita líka matinn niður með gafflinum ef þeir komast upp með það. Í tilfelli kjötbolla og pylsna og hakkabuffs og svoleiðis. Eintóm gleði í Grikklandi við að fylgjast með fólki.

þriðjudagur, maí 06, 2003

Jæja. Ég fór ekki til Krítar eins og planað hafði verið, en fer síðar. Naut þess í staðinn að vera ein heima og reyna að koma hlutum í verk og sofa og fleira í þeim dúr. En. Ég fór til Agrinio (100.000 manna borg vestan við miðju Grikklands) um páskana í staðinn. Páskahelgina sem var viku á eftir íslensku páskunum. Fjölskylda Efi (sambýliskonu minnar) býr þar og þau buðu mér að koma, svo ég yrði ekki ein. Og ég þáði, svona mest til að upplifa grískt páskahald. Og viti menn! Það er bara fullt af seremóníum og herlegheitum varðandi þá, allavega á íslenskan mælikvarða. Og svo var fólk alltaf að spyrja mig hvernig við héldum upp á páskana heima.... "öööh, sumir fara í kirkju á páskadag.... og svo borðum við súkkulaðiegg....."

Á föstudaginn langa, um kl.21, lagði almenningur leið sína upp að kirkjunni og fylgdist með því þegar kista eða lík Krists var táknrænt flutt af krossinum og í gröfina. Svo var farið niður í bæ og fylgst með því þegar nokkrir karlmenn kveiktu í heimagerðum blysum og þeyttu neistaflóði yfir áhorfendaskarann með því að sveifla áðurnefndum blysum í kringum sig. Þetta er hefðbundinn viðburður og afar tilkomumikil sjón, en furðulegt að ekki skuli verða a.m.k. eitt slys á hverjum stað í hvert skipti, því þessi blys áttu það til að springa í annan endann. Að vísu skildist mér seinna að slys hefði átt sér stað einhversstaðar, blys hefði sprungið í höndunum á strák og stórslasað hann.
Á laugardagskvöldið, rétt fyrir miðnætti, var haldið til kirkjunnar með kerti, sérinnflutt frá Jerúsalem sama morgun, og staðið í þéttum hóp fyrir utan kirkju og hlustað á ræðu prestsins sem varpað var úr hátölurum til þeirra sem ekki komust inn. Svo var kveikt á kertum og fólk óskaði hvert öðru gleðilegs árs og "Kristur er upprisinn" og því svarað með "Sannarlega upprisinn" ("×ñéóôïò áíåóôé" - "Áëéèïò áíåóôé") Ég veit ekkert hvernig þessi texti birtist á ógrískum tölvum, en ég vona allavega að ég hafi stafsett rétt.
Á sjálfan Páskadagvar svo farið í það að heilgrilla lömb. Þau voru snyrtilega þrædd upp á tein og skellt yfir stóran kolabakka. Hjá fjölskyldu Efi bjuggu þau svo vel að eiga 2 litla mótora sem þau tengdu við teinana svo ekki þyrfti að handsnúa, og það var mikil og góð uppfinning. Því það tekur um 4 klst. að grilla eitt svona lík. Lömbin hér eru greinilega mun stærri en okkar lömb, íslenska kindin hlýtur að vera einhver sparnaðarútgáfa.
Svo komu ættingjar og uppúr kl.14 var sameiginleg máltíð og mikið spjallað og málin rædd. Við yngra fólkið fórum svo á kaffihús seinnipartinn, svona til að breyta aðeins til. Það er alveg ótrúlegt hvað Grikkir geta hangið mikið á kaffihúsum.