föstudagur, maí 16, 2003

Ég hefði ekki trúað að því óreyndu að ég gæti lifað það af að vera í gallabuxum utandyra í sól og 37°C hita. En aðlögunarhæfni Íslendinga er ótrúleg, og maður bara venst því að líða illa. Þægindum fórnað á altari snyrtimennskunnar. Svo er svo mikill raki í loftinu að maður veit ekki almennilega hvort maður er kófsveittur eða ekki.

Svo er það auðvitað eitt og annað sem kemur mér á óvart, og alltaf jafnmikið á óvart. Those small things. T.d. það að hver einasti Grikki sem ég hef séð hella bjór í glas, hellir honum beint ofan í glasið (eins og gosi) en hallar ekki glasinu eins og við veraldarvönu Íslendingarnir. Grikkir eru greinilega meira froðufólk (froðusnakkar) en við. Mér finnst þetta óendanlega áhugavert. Og það heyrir til undantekninga að sjá þá nota hníf við matborðið. Ef maturinn er hrísgrjón eða annað lauslegt styðja þeir stundum við hann með brauðbita eða bara moka matnum upp í sig með gafflinum. Og bita líka matinn niður með gafflinum ef þeir komast upp með það. Í tilfelli kjötbolla og pylsna og hakkabuffs og svoleiðis. Eintóm gleði í Grikklandi við að fylgjast með fólki.

0 Álit yðar:

Skrifa ummæli

<< Home