þriðjudagur, maí 06, 2003

Jæja. Ég fór ekki til Krítar eins og planað hafði verið, en fer síðar. Naut þess í staðinn að vera ein heima og reyna að koma hlutum í verk og sofa og fleira í þeim dúr. En. Ég fór til Agrinio (100.000 manna borg vestan við miðju Grikklands) um páskana í staðinn. Páskahelgina sem var viku á eftir íslensku páskunum. Fjölskylda Efi (sambýliskonu minnar) býr þar og þau buðu mér að koma, svo ég yrði ekki ein. Og ég þáði, svona mest til að upplifa grískt páskahald. Og viti menn! Það er bara fullt af seremóníum og herlegheitum varðandi þá, allavega á íslenskan mælikvarða. Og svo var fólk alltaf að spyrja mig hvernig við héldum upp á páskana heima.... "öööh, sumir fara í kirkju á páskadag.... og svo borðum við súkkulaðiegg....."

Á föstudaginn langa, um kl.21, lagði almenningur leið sína upp að kirkjunni og fylgdist með því þegar kista eða lík Krists var táknrænt flutt af krossinum og í gröfina. Svo var farið niður í bæ og fylgst með því þegar nokkrir karlmenn kveiktu í heimagerðum blysum og þeyttu neistaflóði yfir áhorfendaskarann með því að sveifla áðurnefndum blysum í kringum sig. Þetta er hefðbundinn viðburður og afar tilkomumikil sjón, en furðulegt að ekki skuli verða a.m.k. eitt slys á hverjum stað í hvert skipti, því þessi blys áttu það til að springa í annan endann. Að vísu skildist mér seinna að slys hefði átt sér stað einhversstaðar, blys hefði sprungið í höndunum á strák og stórslasað hann.
Á laugardagskvöldið, rétt fyrir miðnætti, var haldið til kirkjunnar með kerti, sérinnflutt frá Jerúsalem sama morgun, og staðið í þéttum hóp fyrir utan kirkju og hlustað á ræðu prestsins sem varpað var úr hátölurum til þeirra sem ekki komust inn. Svo var kveikt á kertum og fólk óskaði hvert öðru gleðilegs árs og "Kristur er upprisinn" og því svarað með "Sannarlega upprisinn" ("×ñéóôïò áíåóôé" - "Áëéèïò áíåóôé") Ég veit ekkert hvernig þessi texti birtist á ógrískum tölvum, en ég vona allavega að ég hafi stafsett rétt.
Á sjálfan Páskadagvar svo farið í það að heilgrilla lömb. Þau voru snyrtilega þrædd upp á tein og skellt yfir stóran kolabakka. Hjá fjölskyldu Efi bjuggu þau svo vel að eiga 2 litla mótora sem þau tengdu við teinana svo ekki þyrfti að handsnúa, og það var mikil og góð uppfinning. Því það tekur um 4 klst. að grilla eitt svona lík. Lömbin hér eru greinilega mun stærri en okkar lömb, íslenska kindin hlýtur að vera einhver sparnaðarútgáfa.
Svo komu ættingjar og uppúr kl.14 var sameiginleg máltíð og mikið spjallað og málin rædd. Við yngra fólkið fórum svo á kaffihús seinnipartinn, svona til að breyta aðeins til. Það er alveg ótrúlegt hvað Grikkir geta hangið mikið á kaffihúsum.

0 Álit yðar:

Skrifa ummæli

<< Home