þriðjudagur, júní 24, 2003

Þrátt fyrir að Grikkir slái okkur Íslendinga út hvað aksturseiginleika varðar (ég sé það núna að við erum engan vegin slæm!) og séu gjarnan (les: yfirleitt) ruddar og kærulausir, þá verð ég samt að klappa fyrir strætó- og rútubílstjórum og leikni þeirra í að mætast á götum sem upprunalega voru ekkert svo þröngar, en þegar aðrir leggja bílunum sínum beggja vegna við þá fer þetta að verða svolítið tæpt. Ég bý mig alltaf undir ískur og málmhljóð og öskur og læti þegar ég horfi upp á þess 1-2 cm sem skilja vagnana frá hvor öðrum og frá öðrum ökutækjum. En nei. Ennþá hefur það ekki gerst.

Ég fór til Sounion-höfða (Cape Sounion) á sunnudaginn og horfði upp á hið stórmerka Póseidon-hof. Ja, það hlýtur allavega að vera stórmerkilegt fyrst ég og svo margir aðrir lögðu og hafa í gegnum árin lagt á sig 2 1/2 klst rútuferð hvora leið til að sjá þetta. En satt best að segja bjóst ég við aðeins meiru en bara þessu hofi og snotru útsýni yfir hafið. Ekki miklu, en aaaðeins meiru. En fyrst ég var mætt á svæðið og búin að skoða hofið og hafið og rándýru minjagripaverslunina, þá ákvað ég að rölta um og njóta náttúrunnar. Þarna sá ég glitta í smá baðstrandarbút og grænar hlíðar. Svo ég lagði af stað niður grænu hlíðina, þakta framandi gróðri, í átt að strandarbútnum. Og auðvitað var þessi græni framandi gróður ekkert nema stingublóm í mismunandi útgáfum. Svo nú hef ég rispur upp um alla kálfa.

En. Ég fór til Delfi (Delphi) í gær og það var frábært! Þar kom það mér á óvart hvað það var mikið að sjá, ég (óupplýstur og fáfróður túristinn) hélt að Delfi væri mest bara fallegt útsýni, sérstakt andrúmsloft og svo þessi þriggja-stólpa-steinarúst sem sést í öllum ferðahandbókum þar sem minnst er á Delfi. Þessi áðurnefnda rúst kallast víst Þelos (Thelos) eða eitthvað álíka. En þarna var svakalega falleg náttúra og heilmargt að sjá. Stórt stadium (svona íþrótta"salur" með pöllum) og leiksvið með áhorfendapöllum og rústarústir og steinninn þar sem véfréttin (the Delphi oracle) kom með sinn fyrsta spádóm og margt annað. Ég sá meira að segja hinn útstæða nafla heimsins (úthöggvinn steinn, ca 120 cm á hæð og meter í þvermál) inni á safninu, sem var að mestu lokað vegna viðgerða og uppfærslu oþh. Vegna komandi Ólympíuárs, auðvitað. En maður kíkir þá bara í listasögubækur seinna.
Eftir að hafa skoðað allt sem skoða mátti þarna í kring, lagði ég leið mína inn í bæinn Delfi, um 1,5 km frá rústunum. Þar var allt morandi í túristabúðum og veitingastöðum og "tavernas", en þökk sé Lonely Planet Guide-inum mínum fann ég stað sem seldi rétti á ekki-uppsprengdu verði. Og maður gerðist svo djarfur að panta steiktan kolkrabba (squid - heitir það ekki kolkrabbi á íslensku? Og octopus líka?) sem reyndist svakalega góður, en svolítið eins og að borða lítil hvít dekk. Litlir hvítir gúmmíkenndir hringir, pínulítið uppbrettir á köntunum. Og útsýnið af svölum Taverna Vachos (þar sem ég borðaði) var frábært, maður sá yfir þök bæjarins og út á sjó. Hrikalega afslappandi. Og í Delfi fékk ég engar rispur á fótleggina, en þeim mun meiri sólbruna á axlir, bringu og bak. Og flugnabit. En vel þess virði.

Hálf borgin er óvirk vegna aðgerða (á síðustu stundu!) til að gera Aþenu snotra. Ég ætlaði á "the Archeological Museum" í Aþenu, risastórt og stórmerkilegt, en auðvitað var það lokað af sömu ástæðum og Delfi-safnið. Og það verður víst lokað fram í mars. Aðrir staðir sem eru lokaðir vegna undirbúningsviðgerða eru m.a. Ancient Agora og nokkuð margar lestarstöðvar á "grænu línunni", auk þess sem viðgerðir setja stóran svip á miðbæinn núna. En eins og Veronika (frá Póllandi) sagði, ef ekkert hefur verið gert í 20 ár þá er erfitt að vera að koma öllu í stand núna.

Grikkir eru svakalega uppteknir af mat og matargerð, og ég hef oftar en ekki verið spurð hvort það sé ekki einhver hefðbundin íslensk matargerð og hvernig matur það sé. Og ég reyni eftir bestu getu að útskýra að kannski séu það frekar baksturseiginleikar okkar Íslendinga sem séu hefðbundir (Hnallþórur og flatbrauð og kleinur og pönnukökur), en að við eigum okkur þó sérstaka matargerð sem felist mest í því að sjá til þess að maturinn geymist (ég meina, ég fer ekki að segja að þjóðarrétturinn sé soðinn fiskur með soðnum kartöflum ásamt rúgbrauði og bræddu smjöri?), svosem hangikjöt og saltkjöt og súrmatur. Og að við borðum þennan sér-íslenska mat á ákveðnum árstíma (semsagt á Þorranum). Og fólk spyr furðu lostið af hverju við borðum hann bara einu sinni á ári. "Ja... af því hann er svo vondur...?"

þriðjudagur, júní 17, 2003

Í gær var 35°C hiti og eins í dag. Pffffff. Og ekki bætir það ástandið að í þetta skipti eru það öskukarlar sem eru í verkfalli svo að ruslailmur skreytir götur Aþenu um þessar mundir. Hér eru reyndar ekki ruslatunnur við hvert hús, heldur ruslagámar á öðru hverju götuhorni, og í mörgum hverfum flóir út úr. Ekki í mínu samt, haha. (ekki enn, 7-9-13).

Þrátt fyrir að þetta sé risastór borg sem teygir úr sér í allar áttir þá eru engar almenningssamgöngur hér milli kl. 23:30-24 og 05-05:20. Ég heyrði í gær að þetta væri vegna einhvers samnings milli ríkisins og leigubílstjóra, því "leigubílstjórar þurfa líka að lifa" (svo vitnað sé í móður mína). Ágætt svosem, nema fyrir fátæka (og níska) námsmenn.

En nú eru bara um 2 og hálf vika þar til ég kem heim, hún Guðrún ætlaði að athuga (fyrir mig og sig) hvort ekki fyndist e.k. niðurtalningargræja á netinu fyrir svona bloggsíður. Svo hægt sé að fylgjast almennilega með.

HarleyGuiding
Harley Cooper: Thu ert uppreisnarseggur og
villingur! Skyrd eftir Harley Davidson
motorhjli, fylgir engum reglum og gerir thad
sem thu villt. Thin veika hlid eru karlmenn,
thu hefur gifst nokkrum sinnum vegna astar, en
thad hefur aldrei gengid upp. Thu ert hins
vegar mjog skotin i nuverandi kaerasta thinum,
hann er logga alveg eins og thu. Vonandi bara
ad hann fai aftur tilfinningu i lappirnar eftir
sprenginguna...


Hvada Leidarljos karakter ertu?
brought to you by Quizilla

fimmtudagur, júní 12, 2003


you're no smiley you're a banana


What Smiley Are You?
brought to you by Quizilla

Ég fékk þetta líka skemmtileg plagg frá LIN núna um mánaðarmótin (sent heim í Garðabæ, útsendarar mínir þar skýrðu mér frá því) þar sem þeir sögðust ekki geta greitt út lán þessa önn vegna ónógs námsárangurs. Ég var ekki sátt og skrifaði harðort (þó ekki um of) bréf til LHI og óskaði eftir útskýringu og réttlætingu á þessari framkomu, mér hefði skilist að ég fengi dvölina hér úti dæmda sem fulla önn heima, hvort þau ætluðu að bíða með það fram í september að staðfesta þetta til LIN og að ég hefði alveg þegið vitneskju um það fyrirfram, vegna þess að nú myndi ég lenda í skuld við bankann. Og ég urraði þegar ég ýtti á "send" hnappinn.
Það kom svo í ljós á mánudag hversvegna LIN hefur ekki greitt út neitt námslán til mín, konan á Skiptinemaskrifstofunni hér hafði ekki sent LHI neina staðfestingu á veru minni hér (nokkuð sem ég bað um í byrjun APRIL og útskýrði af hverju!!) svo að LHI sendi LIN ekki nein plögg um að ég væri í námi núna. Ég fór náttúrulega rakleiðis á Er.skrifstofuna til að kvarta, en komst ekki langt með það, því í ljós kom að áðurnefnd kona er í fríi fram á mánudaginn næsta. Einhver samstarfsfélagi hennar bauðst til að koma skilaboðum áleiðis, ég efast nú um að nokkuð verði gert í málunum fyrr en eftir helgi. En þá mun ég líka mæta og kvarta og reka á eftir ! Og þá verður engin miskunn hjá Magnúsi (eins og sagt er).
Maður verður alltaf jafn hissa á því þegar maður þarf blátt áfram að ítreka það æ ofan í æ að fólk vinni vinnuna sína hér. Ég veit ekki hvort skrifstofufólk (pappírsfinnar) hér séu í einhverrri sér réttindabaráttu eða baráttu fyrir undirgefni annara, með attitjúdinu "Ég geri þetta bara ef ég hef tíma og ef mig langar til. Er þetta eitthvað svo mikilvægt annars? Ég get ekki séð að mitt líf breytist neitt við að sleppa þessu..."

Síðustu hitatölur eru:
í dag (kl. 11?) : 32°C
í gær kl. 18 : 32°C
í gær kl. 23:15 : 31°C
Þetta er óeðlilega stabílt. Hvar er fjölbreytnin eiginlega?

þriðjudagur, júní 10, 2003

Hér er greinilega að koma sumar því hitinn er alveg að fara með mann. Þetta væri mögulega þolanlegt ef ekki væri heimavinna sem ég þyrfti að klára og ég þyrfti ekki að sofa heldur. Því við erum ekki með loftkælingu, og maður er farinn að liggja í rúminu og glápa upp í loft fram undir morgun, þegar fer að kólna aðeins (um kl.6). Hitastigið í gær og fyrradag var um 40°C held ég, og virðist ekkert fara of mikið niður á kvöldin. Og ég sem hélt að það væri náttúrulögmál. Greinilega ekki í Grikklandi, hér er ekki nærri allt eins og það ætti að vera. Finnst manni. En það verður allavega ágætt að koma heim og geta sofið, þó ég viti ekki hvernig mér tekst að venjast almennu hitastigi þar í landi. Eða að aðlagast til baka hvað tímaskyn varðar og fara að mæta á réttum tíma eitthvað. En tíminn mun leiða það í ljós...

Stefnan er tekin á Santorini og Krít í seinnihluta mánaðarins ásamt Veroniku frá Póllandi og mögulega einhverjum Spánverjum. Kannski maður kíki á fleiri eyjar svona í leiðinni...