miðvikudagur, júlí 02, 2003

Jæja, nú er ég allavega búin að smakka alvöru kolkrabba (því samkvæmt SiggaSveini er "squid" smokkfiskur) og sverðfisk líka. Ótrúleg dirfska hjá frk. Matvandri. Sverðfiskurinn var nú eiginlega bara eins og "venjulegur" fiskur, er kolkrabbinn var þrælgóður.

Á miðvikudagskvöldið síðastliðið lögðum við Veronika af stað til Krítar. Ferðinni var heitið til Iraklio (Heraklio), ljótustu hafnar Krítar, að sögn. ("Af hverju ætlið þið að fara þangað?!? Það er svo ljót borg, hún er svona eins og Aþena!" voru algengustu viðbrögð fólks). Svosem ekkert sérstök, en það sem Iraklio hefur fram yfir aðra staði er að hún inniheldur fornleifasafn (sem er opið !) og að rústir Knossos-hallarinnar eru skammt frá. Knossos hefur það fram yfir aðrar byggingarústir að hún hefur að hluta til verið endurreist (afar litlum hluta að vísu, og með steypu) eftir hugmyndum fornleifafræðingsins Arthur Evans, sem vann að uppgreftrinum milli 1900 og 1931, svo maður getur aðeins gert sér í hugarlund hvernig þarna var umhorfs og hver herbergjaskipan var.
Eníwei. Við komum til Krítar á fimmtud.morgun, gistum eina nótt í Iraklio á hálfhráu Youth Hostel og vorum því fegnastar að tékka okkur þaðan út um morguninn. Um kvöldið, eftir að hafa rölt og skoðað rústir og lesið á skilti og tekið myndir í Knossos, héldum við til Þiru (Thira - betur þekkt sem Santorini), eyju sem hvarf að mestu í hafið í eldgosi um 1500 fyrir okkar tímatal (f.o.t.). Eftir situr e.k. hálfhringur af eyju með klettum sem ganga meira lóðrétt en hallandi niður í hafið. Og byggð hvítra húsa efst á gígbarminum. Þau eru auðvitað seinni tíma uppfinning frá því löngu eftir gos. En afar snotur, úr fjarlægð er þetta eins og klettur í hafinu með fugladritsrönd efst.
Allavega. Fyrir röð tilviljanna settumst við að í Perissa, bæ alveg við ströndina, og tókum ströndina og hafið með þvílíku trompi að sólbruninn dugði okkur í 2 daga á eftir.
Á laugardeginum (degi nr.2) leigðum við okkur sitthvora vespuna (scooter) og rúntuðum um eyjuna. Heimsóttum Fira (aðalbæinn) og Ía (Oia) sem eru uppfullar af ferðamannavarningi og iðnaði í kringum okkur túristana.

Framhald af þessari sögu kemur væntanlega á morgun eða hinn (það er nefnilega verið að bíða eftir mér núna....). Kem heim um næstu helgi!

0 Álit yðar:

Skrifa ummæli

<< Home