föstudagur, ágúst 29, 2003

takk takk takk

ÞAKKIR VIKUNNAR (já allrar þessarar viku) FARA TIL GARÚNAR sem á sinn einstæða hátt reis úr rekkju langt fyrir aldur fram (um kl.8 á föstudegi) til að leiða mig í gegnum html-frumskóginn með aðstoð msn og hreinlega REDDA BLOGGINU og fjandans hliðarlínunni sem innihélt aukadótið mitt. Nú þarf ég bara að nýta hana í að hjálpa mér með allt hitt sem ég vil leiðrétta... Give an inch, take a yard. Þakkir næstu viku munu semsagt ekki fara til mín....

fimmtudagur, ágúst 28, 2003

Skólasetning á morgun, skóli á mánudag. Guði sé lof !!!!!

Það er sama þó ég rembist eins og rjúpan við staurinn, ekki tekst mér að lagfæra síðuna þannig að gestabók og hlekkir og tag-borðið haldi sig hægra megin, þetta hangir bara neðst neðst niðri. Ég er ekki sátt.

miðvikudagur, ágúst 27, 2003

Úr bandarískri dagbók lögreglunnar, tekið úr Reader's Digest frá því í des. 1995 :
From the politically correct Brooklyn, Ohio, Sun Journal: "Police arrested two Cleveland women who allegedly were loitering in order to promote themselves as morally challenged freelance entertainers to various individuals passing through the intersection of West 44th Street and Lorain Avenue at about two in the afternoon."

Það eru greinilega fleiri en íslenskar löggur sem kunna að orða hlutina.

þriðjudagur, ágúst 26, 2003

Smásaga úr heimi heilbrigðisgeirans: Maður kærir lækna fyrir aflimun án hans samþykkis, og svona líka aflimun!

Eitthvað er bogið við útkomur síðustu kannanna... Ég hélt ég væri ekki alveg svona.....
You Are Hate
You are Hate.

You care little to nothing about people and things
around you. You are consumed by feelings of
animosity and loathing towards everything or
one thing and it affects your view of all that
is around you.


What Emotion Are You?
brought to you by Quizilla

mánudagur, ágúst 25, 2003

CWINDOWSDesktopFightclub.jpg
Fight Club!


What movie Do you Belong in?(many different outcomes!)
brought to you by Quizilla

Verslunarmannahelgin

... fór í mínu tilfelli fram á Hvammstanga, nánar tiltekið í Lyngholti (húsinu hennar ömmu). Þangað höfðum við hópað okkur: Ég, Hannes frændi og Bedda kærastan hans, Sæmi vinur þeirra, Laufey vinkona mín og Garðar kærasti hennar (þvílík romsa, eins gott að við vorum ekki fleiri)

Faereyjaferdin - Olavsvaka 2003

Eins og sönnum Íslendingum sæmir, leggjumst við Guðrún stundum í víking. Í ár (eins og í fyrra) var ferðinni heitið til Færeyja, þar sem taka skyldi þátt í Ólavsvöku. Sú er til heiðurs Ólafi helga sem kom og kristnaði Færeyjar (eitthvað voru þeir greinilega sáttari við hann en við) og öllu slegið upp í a.m.k. 2ja daga þjóðhátíð.
Ferðalagið hófst á því að flugsætið hennar Guðrúnar var tvíbókað. Hún fékk þó annað sæti, við hliðina á manni sem bauð henni á endanum vinnu á gröfu. Eða einhverju slíku. Örugglega gulu. Svo það var ekki alslæmt. En svo þegar við vorum lent og komin upp á gistiheimili kom aftur babb í bátinn. Gistiheimilið Ruba veitti Kunningastovunni (tourist information og okkar tengiliður í FO) þær upplýsingar að það gæti boðið okkur, 11 manna hópi, upp á eitt 3ja manna herbergi, 4x 2ja manna og eitt eins manns herbergi. Fyrir 12 manns semsagt. Fararstjóri vor hafði því tekið þá ákvörðun að bóka fyrir 12 manns svo eina staka manneskjan þyfti ekki að deila herbergi með einhverju pari, og vice versa. Samanlagður kostnaður deildist niður á 11 manns. Þetta var semsagt áður en við mættum á staðinn og komumst að því að þetta 3ja manna herbergi var í raun bara 2ja manna en með möguleika á dýnu á gólfinu. Og að samanlagt höfðu þau upp á að bjóða 3x 2ja manna herbergi og 3x eins manns herbergi. Fyrir 9 manns alls. Ekki þótti forsvarsmönnum gistiheimilisins það mikið mál, heldur buðu okkur að settur yrði auka beddi inn í eitt eins manns herbergið, og hvort einhver einn gæti ekki bara sofið í stofunni í nótt (klukkan var rúml. eitt eftir miðnætti); þessu með aukarúm yrði svo bara reddað daginn eftir. Meðan á þessum viðræðum stóð fórum við allt í einu að velta því fyrir okkur hvenær dags morgunverður væri framreiddur (þar sem gistingin var seld sem "bed & breakfast") og áræddum að spyrja forsvarsmenn að því. Þá fengum við að vita að ekki yrði neinn morgunverður í boði, því þau hjónin ætluðu út úr bænum um helgina. Eeeeen! Við fengjum full afnot af ísskápnum. Sem var svona líka gaaaaltómur. Ekki var það til að auka á gleði okkar.

Í tilraun til að slá öllu upp í kæruleysi eða drekkja sorgum okkar ef ekki vildi betur til, röltum við okkur niður að næstu krá. Um 50 m frá gistiheimilinu. Þar átti sá stórskemmtilegi viðburður sér stað, að mamma hennar Eddu höstlaði út einhverja 11 bjóra og 2 viskíglös fyrir okkur 7 manneskjur. Það var einn ungur og innfæddur sem féll svona hrottalega í stafi yfir glæsileik hennar, að þegar hún var búin að dansa einn stuttan dans við hana þá byrjuðu gullnar veigarnar bara að flæða yfir á borðið okkar (í glösum). Þetta gerðist allt á svo stuttum tíma að við höfðum engan vegin við, og það var grátlegt að þurfa að skilja þetta eftir þegar okkur var hent út við lokun staðarins. Reyndar hafði vinur okkar tekið sig til og hrasað all glæsilega á borðið svo það var reyndar megnið af ódrukkna áfenginu sem átti sína hinstu hvílu á gólfinu. En grátlegt engu að síður. Þeir deyja víst ungir sem guðirnir elska.

Aftur að gistimálum. Við Guðrún (svo herramannslegar!) buðum okkur fram til stofudvalar, ákváðum að við vildum fremur þjást saman í stofunni en að skipta okkur upp, svo við komum okkur fyrir í sófunum tveimur. Afar þægilegir að sitja í, leðurklæddir og flottir. Því miður var hvorugur sófinn ætlaður til legu fyrir fólk yfir 130 cm á langveginn.
Kvöldið eftir (laugardagskvöld), einhverntíman milli kl. 18 og 20 birtust svo húsráðendur með svampdýnu sem þeir fleygðu inn í herbergið okkar Guðrúnar. Þegar við höfðum lagt hana niður áttuðum við okkur á að herbergið rúmaði illa eitt rúm og dýnu á gólfinu. Við brutumst svo síðar inn í einhverja smákompu (sem þau höfðu læst þegar þau skildu að við vildum ekki þiggja hana sem aukaherbergi) og stálum þar annari ofurþunnri dýnu til að reyna að bæta aðeins úr málum.
Á sunnudeginum (frekar en mánudeginum) birtust húsráðendur svo með handklæði fyrir gestinn í aukabælinu og klósettpappírinn sem við vorum búin að biðja um frá því á föstudagskvöldið. Við fengum reyndar 2 klósettrúllur við komuna (eina fyrir hvort salernið) en fannst það heldur lítið fyrir 11 manns í 5 daga. Maður er svo gráðugur. Ein af samferðafólki okkar minntist þá á að stelpan sem svæfi á gólfinu (Guðrún) væri heldur ósátt og fyndist miður þægilegt. "En þetta er svo stuttur tími," var svarið, "er þetta ekki allt í lagi?"

En við létum gistimálin ekki skemma fyrir okkur ferðina því þrátt fyrir allt var staðsetningin frábær, beint í miðbænum, og svo passaði maður sig bara á að vera ekkert að dvelja meir en góðu hófi gegndi á gistiheimilinu. Og svo er alltaf fjör á Ólavsvöku ef maður kemur með því hugarfari. Og við erum þegar byrjaðar að skipuleggja förina á næsta ári (en þá verður gist einhversstaðar annarsstaðar).

... framhald Grikklandssogu

Jæja. Þar sem frá var horfið sögu þarna á Santorini/Þiru, var að við Veronika hin pólska leigðum okkur sitthvora vespuna. Sem er alveg nauðsynlegt að mínu mati, annars er hætt við að maður hangi bara á sínu gistisvæði og svæðisströnd allan tímann og sjái ekki eyjuna í heild sinni. Hún er nú ekki stór, og aaalveg þess virði að skoða sig um. Út um alla eyjuna má sjá sömu fjöldaframleiddu minjagripi sem minntu ferðamenn á hvítkölkuðu húsin með bláu þökunum og svo svarta sandinn sem eyjan sérhæfir sig í. Reyndar er líka ein strönd með rauðum sandi (Rauða ströndin) og ein með hvítum (Hvíta ströndin - surprise!), en annars er allt svart/grásvart (samt ekki eins flottur sandur og okkar). Þessi svarti sandur verður svo skuggalega heitur yfir daginn, best er að koma sér fyrir á handklæði eða stól sem næst sjónum svo maður eigi síður á hættu að skaðbrenna á sér iljarnar á leiðinni frá handklæði að hafi og aftur til baka. 3 metrar er hæfilegt. Og við klikkuðum á því. En það er önnur saga.

Meðan á þessari stuttu dvöl okkar stóð náðum við sólbruna frá helvíti, gönguferð í fjalli (sem var stytt mikið sökum dagsbirtuleysis), rúnti um eyjuna sem endaði með því að önnur vespan (skútan? sbr. ens. scooter) bilaði og við þurftum að bíða í 1 og hálfa klst. eftir viðgerðarmanni, auk þess sem ég fór í túristasiglingu til að skoða merkilega staði. Sú sigling fólst í því að siglt var út að eldfjallinu fræga og rölt þar um. Ekki slæmt útsýni og skemmtilegt að gera þetta (en okkar eldfjöll eru samt flottari), sigla um og synda frá bát að einhverjum hver úti í hafi. Hverinn var moðvolgur (kældur af hafinu) og brennisteinsgulur, en þetta var samt gaman að prófa, þrátt fyrir að þetta hafi bara aukið eigið þjóðarstolt á landsins gæðum og kostum. Svo var komið við á litlu eyjubroti (e.k. tanga sem brotnaði frá hálfkringlunni einhverntíman í denn. Ekki að hún hafi beinlínis mátt við því, en svona er það nú). Ég man ekki í svipinn hvað bærinn á þessu broti hét, mun athuga það við tækifæri, en þarna var svosem ekki mikið að sjá. Nema helst meira af hvítu húsunum með bláu þökunum. Og svo auðvitað útsýni yfir hafið og eldfjallið og aðra hluta Santorini. Að lokum var svo siglt meðfram allri eyjulengjunni og maður sá húsin á gjábarminum í allri sinni dýrð.
Við Veronika tókum svo næsta bát til Aþenu um kvöldið.