mánudagur, ágúst 25, 2003

Faereyjaferdin - Olavsvaka 2003

Eins og sönnum Íslendingum sæmir, leggjumst við Guðrún stundum í víking. Í ár (eins og í fyrra) var ferðinni heitið til Færeyja, þar sem taka skyldi þátt í Ólavsvöku. Sú er til heiðurs Ólafi helga sem kom og kristnaði Færeyjar (eitthvað voru þeir greinilega sáttari við hann en við) og öllu slegið upp í a.m.k. 2ja daga þjóðhátíð.
Ferðalagið hófst á því að flugsætið hennar Guðrúnar var tvíbókað. Hún fékk þó annað sæti, við hliðina á manni sem bauð henni á endanum vinnu á gröfu. Eða einhverju slíku. Örugglega gulu. Svo það var ekki alslæmt. En svo þegar við vorum lent og komin upp á gistiheimili kom aftur babb í bátinn. Gistiheimilið Ruba veitti Kunningastovunni (tourist information og okkar tengiliður í FO) þær upplýsingar að það gæti boðið okkur, 11 manna hópi, upp á eitt 3ja manna herbergi, 4x 2ja manna og eitt eins manns herbergi. Fyrir 12 manns semsagt. Fararstjóri vor hafði því tekið þá ákvörðun að bóka fyrir 12 manns svo eina staka manneskjan þyfti ekki að deila herbergi með einhverju pari, og vice versa. Samanlagður kostnaður deildist niður á 11 manns. Þetta var semsagt áður en við mættum á staðinn og komumst að því að þetta 3ja manna herbergi var í raun bara 2ja manna en með möguleika á dýnu á gólfinu. Og að samanlagt höfðu þau upp á að bjóða 3x 2ja manna herbergi og 3x eins manns herbergi. Fyrir 9 manns alls. Ekki þótti forsvarsmönnum gistiheimilisins það mikið mál, heldur buðu okkur að settur yrði auka beddi inn í eitt eins manns herbergið, og hvort einhver einn gæti ekki bara sofið í stofunni í nótt (klukkan var rúml. eitt eftir miðnætti); þessu með aukarúm yrði svo bara reddað daginn eftir. Meðan á þessum viðræðum stóð fórum við allt í einu að velta því fyrir okkur hvenær dags morgunverður væri framreiddur (þar sem gistingin var seld sem "bed & breakfast") og áræddum að spyrja forsvarsmenn að því. Þá fengum við að vita að ekki yrði neinn morgunverður í boði, því þau hjónin ætluðu út úr bænum um helgina. Eeeeen! Við fengjum full afnot af ísskápnum. Sem var svona líka gaaaaltómur. Ekki var það til að auka á gleði okkar.

Í tilraun til að slá öllu upp í kæruleysi eða drekkja sorgum okkar ef ekki vildi betur til, röltum við okkur niður að næstu krá. Um 50 m frá gistiheimilinu. Þar átti sá stórskemmtilegi viðburður sér stað, að mamma hennar Eddu höstlaði út einhverja 11 bjóra og 2 viskíglös fyrir okkur 7 manneskjur. Það var einn ungur og innfæddur sem féll svona hrottalega í stafi yfir glæsileik hennar, að þegar hún var búin að dansa einn stuttan dans við hana þá byrjuðu gullnar veigarnar bara að flæða yfir á borðið okkar (í glösum). Þetta gerðist allt á svo stuttum tíma að við höfðum engan vegin við, og það var grátlegt að þurfa að skilja þetta eftir þegar okkur var hent út við lokun staðarins. Reyndar hafði vinur okkar tekið sig til og hrasað all glæsilega á borðið svo það var reyndar megnið af ódrukkna áfenginu sem átti sína hinstu hvílu á gólfinu. En grátlegt engu að síður. Þeir deyja víst ungir sem guðirnir elska.

Aftur að gistimálum. Við Guðrún (svo herramannslegar!) buðum okkur fram til stofudvalar, ákváðum að við vildum fremur þjást saman í stofunni en að skipta okkur upp, svo við komum okkur fyrir í sófunum tveimur. Afar þægilegir að sitja í, leðurklæddir og flottir. Því miður var hvorugur sófinn ætlaður til legu fyrir fólk yfir 130 cm á langveginn.
Kvöldið eftir (laugardagskvöld), einhverntíman milli kl. 18 og 20 birtust svo húsráðendur með svampdýnu sem þeir fleygðu inn í herbergið okkar Guðrúnar. Þegar við höfðum lagt hana niður áttuðum við okkur á að herbergið rúmaði illa eitt rúm og dýnu á gólfinu. Við brutumst svo síðar inn í einhverja smákompu (sem þau höfðu læst þegar þau skildu að við vildum ekki þiggja hana sem aukaherbergi) og stálum þar annari ofurþunnri dýnu til að reyna að bæta aðeins úr málum.
Á sunnudeginum (frekar en mánudeginum) birtust húsráðendur svo með handklæði fyrir gestinn í aukabælinu og klósettpappírinn sem við vorum búin að biðja um frá því á föstudagskvöldið. Við fengum reyndar 2 klósettrúllur við komuna (eina fyrir hvort salernið) en fannst það heldur lítið fyrir 11 manns í 5 daga. Maður er svo gráðugur. Ein af samferðafólki okkar minntist þá á að stelpan sem svæfi á gólfinu (Guðrún) væri heldur ósátt og fyndist miður þægilegt. "En þetta er svo stuttur tími," var svarið, "er þetta ekki allt í lagi?"

En við létum gistimálin ekki skemma fyrir okkur ferðina því þrátt fyrir allt var staðsetningin frábær, beint í miðbænum, og svo passaði maður sig bara á að vera ekkert að dvelja meir en góðu hófi gegndi á gistiheimilinu. Og svo er alltaf fjör á Ólavsvöku ef maður kemur með því hugarfari. Og við erum þegar byrjaðar að skipuleggja förina á næsta ári (en þá verður gist einhversstaðar annarsstaðar).

1 Álit yðar:

At 23/12/17 03:25, Blogger Unknown said...

I'm puzzled with lots of exercises. I was afraid I could not do the right time despite my hard work. I need a support person.
http://run3play.com

 

Skrifa ummæli

<< Home