mánudagur, ágúst 25, 2003

... framhald Grikklandssogu

Jæja. Þar sem frá var horfið sögu þarna á Santorini/Þiru, var að við Veronika hin pólska leigðum okkur sitthvora vespuna. Sem er alveg nauðsynlegt að mínu mati, annars er hætt við að maður hangi bara á sínu gistisvæði og svæðisströnd allan tímann og sjái ekki eyjuna í heild sinni. Hún er nú ekki stór, og aaalveg þess virði að skoða sig um. Út um alla eyjuna má sjá sömu fjöldaframleiddu minjagripi sem minntu ferðamenn á hvítkölkuðu húsin með bláu þökunum og svo svarta sandinn sem eyjan sérhæfir sig í. Reyndar er líka ein strönd með rauðum sandi (Rauða ströndin) og ein með hvítum (Hvíta ströndin - surprise!), en annars er allt svart/grásvart (samt ekki eins flottur sandur og okkar). Þessi svarti sandur verður svo skuggalega heitur yfir daginn, best er að koma sér fyrir á handklæði eða stól sem næst sjónum svo maður eigi síður á hættu að skaðbrenna á sér iljarnar á leiðinni frá handklæði að hafi og aftur til baka. 3 metrar er hæfilegt. Og við klikkuðum á því. En það er önnur saga.

Meðan á þessari stuttu dvöl okkar stóð náðum við sólbruna frá helvíti, gönguferð í fjalli (sem var stytt mikið sökum dagsbirtuleysis), rúnti um eyjuna sem endaði með því að önnur vespan (skútan? sbr. ens. scooter) bilaði og við þurftum að bíða í 1 og hálfa klst. eftir viðgerðarmanni, auk þess sem ég fór í túristasiglingu til að skoða merkilega staði. Sú sigling fólst í því að siglt var út að eldfjallinu fræga og rölt þar um. Ekki slæmt útsýni og skemmtilegt að gera þetta (en okkar eldfjöll eru samt flottari), sigla um og synda frá bát að einhverjum hver úti í hafi. Hverinn var moðvolgur (kældur af hafinu) og brennisteinsgulur, en þetta var samt gaman að prófa, þrátt fyrir að þetta hafi bara aukið eigið þjóðarstolt á landsins gæðum og kostum. Svo var komið við á litlu eyjubroti (e.k. tanga sem brotnaði frá hálfkringlunni einhverntíman í denn. Ekki að hún hafi beinlínis mátt við því, en svona er það nú). Ég man ekki í svipinn hvað bærinn á þessu broti hét, mun athuga það við tækifæri, en þarna var svosem ekki mikið að sjá. Nema helst meira af hvítu húsunum með bláu þökunum. Og svo auðvitað útsýni yfir hafið og eldfjallið og aðra hluta Santorini. Að lokum var svo siglt meðfram allri eyjulengjunni og maður sá húsin á gjábarminum í allri sinni dýrð.
Við Veronika tókum svo næsta bát til Aþenu um kvöldið.

0 Álit yðar:

Skrifa ummæli

<< Home