laugardagur, október 04, 2003

Jólabörn frá Helvíti
Jæja. Seint birtast sumir... EEEN birtast þó!!
Ég var að velta því fyrir mér, og já ég veit að nú er bara októberbyrjun, en ég var fjandakornið samt að velta því fyrir mér hvort við Íslendingar værum ekki mestu jólabörn í heimi? Allavega á topp 5 listanum. Hér skal nefnilega allt gerast fyrir jólin og líf okkar snýst að miklu leyti kringum þau (eins og jörð umhverfis sólu). Hér skal nefnilega allt gerast fyrir jólin. Fyrir u.þ.b. viku sá ég auglýsingu fyrir eldhúsinnréttingar "á frábærum kjörum"; raðgreiðslum til 30 ára og þú bregst strax við hefurðu "enn tækifæri á að fá upp innréttinguna fyrir jólin!" Og þetta var, já haldið ykkur, í september. Bráðum fáum við aftur auglýsingar á borð við "Í kjólinn fyrir jólin" og "Sjáum tólin fyrir jólin". Og í nóvember byrjar stressið við að koma parketinu á fyrir jólin eða hreinsa út úr geymslunni eða koma upp nýju eldhús-/baðherbergisinnréttingunni. Að ekki sé minnst á jólakortin sem eru send til allra vina og ættingja sem maður hefur annars ekki samband við, svona smá viðleitni til að segja "ég er nú ekki alveg búin að gleyma þér". Jólin eru kannski það besta sem við höfum því án þeirra gerðum við aldrei neitt.

0 Álit yðar:

Skrifa ummæli

<< Home