mánudagur, október 27, 2003

x......x.......x

(titillinn er bara til að fá skiptilínu).
Nú er Katla búin að blogga (í fyrsta skipti síðan í maíbyrjun!) og ei skal maður minni vera, en skrá í opinberar dagbækur viðburði vikunnar.

Fyrir viku síðan og rúmlega það var þrítugsafmæli Sóleyjar "bekkjar"systur minnar í LHÍ og af því tilefni bauð hún öllu 3ja ári í hönnun í rokna partý heim til sín. Mæting skyldi vera kl.17:30 og svo djammað af krafti fram til miðnættis, en þá kæmi rúta sem flytti gesti úr Mosfellsbæ niður í miðbæ Reykjavíkur, enda ekki í göngufæri. Jújú, ekkert mál hugsaði ég með mér, vér mætum snemma til að dokjúmentera atburðinn (skólaverkefni) og tökum upp á video á hverjum klukkutíma. Það var svo einhverntíman á miðjum laugardeginum að hinn illgjarni sannleikur rann upp fyrir mér: Frá kl. 17:30 til miðnættis eru meira en 6 (sex!) klukkustundir! Og ég fór af miklu raunsæi að velta því fyrir mér hvernig ég ætti að afbera sama fólkið í sex og hálfa klukkustund í strekk. Og það dimmdi yfir mér. En auðvitað bælir maður bara niður allan ótta og mætir með Sólheimaglott á vör og kæruleysið í farteskinu og lifir þetta af. Sem reyndist, þegar á hólminn var komið, ekki svo erfitt. Og þetta reyndist bara alveg ótrúlega skemmtilegt kvöld. Fólk misdrukkið en enginn svo ofurölvi að hann kæmist ekki klakklaust í rútuna. Rútan kom reyndar ekki fyrr en þegar klukkan var a.m.k. hálftíma gengin í eitt og þótti öllum fullsnemmt. En örlögin urðu ei flúin. Vegna ódrykkju og morgundagsanna fór ég bara heim í stað þess að fara í bæinn. Missti víst ekki af mjög miklu því hópurinn splundraðist að mestu þegar í bæinn var komið. Eins og við var að búast. En kvöldið lifir. Í minningunni allavega.

Á sunnudagskvöldið (fyrir einmitt réttri viku og einum degi) horfði ég svo á heimildarmynd Michaels Moore; Bowling For Columbine. Ekki slæm, en skyldi þó kannski taka með fyrirvara. Frændi minn (Bandarískur að föðurætt og uppalinn í Texas) benti réttilega á að þetta er ekki beinlínis heimildarmynd eins og þessar sem National Geographic Channel eða Discovery sýna, því skoðun höfundar skííííín í gegn og hann er langt frá því að vera "fjarlægur", ef þið skiljið hvað ég meina. En mér fannst þetta mjög áhugavert, verandi Evrópubúi hefur maður oft sterka skoðun á Ríkjunum og þeim er þau byggja. Og mér fannst þetta löngu tímabær samantekt, byssueign Bandaríkjamanna er komin út í öfgar að mínu mati. Mikki Moore benti áreiðanlega sjálfur á að byssueigandi B.menn eru margir hverjir hættir að notast við heilbrigða skynsemi, það flykir öruggara að skjóta fyrst og spyrja svo.
Mér finnst líka alveg ótrúleg þessi forræðishyggja stjórnarinnar þar, að ritskoða allt fréttaefni sem þegnar landsins hafa aðgang að til að annaðhvort "drepa ekki niður sigurviljann og andann" eða til að breiða yfir klúður sem hún hefur stofnað til. Þetta er algjör óvirðing og ekkert annað, að reikna bara með því fyrirfram að íbúar landsins geti ekki tekið rökstuddar ákvarðanir. Og minnkar að sama skapi ábyrgð stjórnar þar sem hún virðist ekki þurfa að svara til saka fyrir neinum nema sjálfri sér. Og er áreiðanlega ein orsök þess að við í Evrópu finnum okkur endalaust tækifæri til að segja sögur af "heimsku Kanans". En nóg um Bandaríkin.

Á föstudaginn var (sko, farin að nálgast daginn í dag) voru verkefnaskil og yfirferð. Nú skyldi skilað inn merkjum (logoum) fyrir væntanlega vöru okkar. Og jújú, það hafðist svosem, en sökum viðvarandi hugmyndadoða var ég ekki alveg nógu sátt við mína útkomu. En svo er alltaf möguleiki (allavega smá) til að koma sér aftur á réttan kjöl í næsta áfanga. Sem inniheldur umbúðahönnun með áðurnefndu merki.
Á föstudaginn fór ég líka í bíó. Sem var líklega hápunktur dagsins því ég fór með Laufeyju að sjá Kill Bill vol.1. Þrusugóð bara. Ansi blóðug og brútal, en Q.Tarantino vann sig vel út úr því með því að ýkja það bara enn meira. Mæli með henni.

Í þessum rituðu orðum kom hagl.

0 Álit yðar:

Skrifa ummæli

<< Home