sunnudagur, apríl 04, 2004

Brúðkaup í gær. Hannes og Bedda stóðu sig frábærlega í ferlinum við "Becoming married" og öllu sem því fylgdi. Athöfnin fór fram í litlu kirkjunni í Árbæjarsafni, með eftirfarandi sniði:
Brúðarmars
Bæn
Óðurinn til gleðinnar (úr 9. Beethovens)
Ávarp
Vor Guð í Jésú nafni
Gifting
I was made for loving you
Útgöngumars (úr Draumi á Jónsmessunótt, e. Mendelssohn)

Það var ótrúlegt hvað I was made for loving you hljómaði vel á þessu gamla harmóníum-orgeli sem er í kirkjunni, og ég held að flestum hafi fundist þetta koma vel út. Ég er ekki frá því að núna sé þetta uppáhaldslagið mitt. Í harmóníum-útsetningu þ.e.a.s. Organistinn frábæri var Hörður Bragason úr Apparat Organ Quartet. Við Maggi vinur Hannesar stóðum svo bakatil og létum engilfagrar raddir okkar lýsa upp hina fremur dimmu kirkju í viðlagi I was made... Eða svo gott sem.

Veislan var svo haldin í Veislusal iðnaðarmanna í Skipholti og heppnaðist frábærlega. Allavega frá mínu jaðarsæti séð. Maturinn var framleiddur af fjölskyldum brúðhjónanna og gladdi okkar geð ásamt góðu rauðvínin og góðu hvítvíni og kæti ríkti á hverju borði. Svo kom brúðartertan bökuð af .... Braga? vini Hannesar (það er greinilega þegar að brúðkaupi kemur að maður kemst að því hverjir raunverulegir vinir manns eru) og það sem meira var: Kransakaka!! Og það er lítil sem engin lygi: Brúðkaupsveislur og fermingarveislur eru bara dulbúnar umbúðir utan um kransakökur. En titiltertan var samt mjög góð líka. Brúðkaupsdansinn var svo stiginn við I was made... og reykvél varpaði dulúðlegum en þó viðeigandi blæ á brúðhjónin. Og upp frá því stigu aðrir dans. Rafgashaus (hljómsveit Hannesar og Magga við þriðja mann) steig svo á stokk og tók 1,5 lög og nokkrar byrjanir, svo tók pönkhljómsveitin Brúðarbandið við og reif upp fjörið. Diskótekið ó-dollý reit tóna þekktra dægurlaga á hljóðhimnur vorar milli atriða og stóð sig að mestu leyti vel. Eeeeen!!! Síðasta lag fyrir brotthvarf brúðhjóna kom frá Rammstein. Frábært, enda líklega búið að biðja um það. Ég stökk þá upp og bað gaurinn að spila líka Heirate mich enda algjörlega þema-tengt. Og jújú, gaurinn setur það á, það gengur í smástund, en svo rétt áður en merkilegi millikaflinn (viðlagið) kom rauf hann útsendinguna með afmæliskveðju. Og afmælisbarnið var áreiðanlega vel að þessari kveðju komið, en það lag sem tók við kveðjunni var EKKI afgangurinn af Heirate mich heldur Stuðmannalagið Halló halló. Ég hefði getað grátið!! Grínlaust. Maðurinn bar enga skynjun á þema kvöldsins né heldur Rammstein.
En svona er þetta.

0 Álit yðar:

Skrifa ummæli

<< Home