föstudagur, apríl 30, 2004

f?lk er f?bbbbl!!

FÓLK!! Svona almennt séð hef ég ekki svo mikið á móti fólki og viðurkenni allt að því fúslega að ég sækist eftir félagsskap þess af og til. En samt. Fólk fer oft óskaplega mikið (lesist með mörgu i-um; miiiiiiiiiikið) í taugarnar á mér (og ekki í pirrurnar á mér, n.b., rétt eins og ull fer ekki í klæjurnar á mér). Nýjasta umræðuefnið er margumtalað frumvarp Björns okkar Bjarnasonar (eða er það ekki hans?) um hjónabönd útlendinga og Íslendinga, og að fólk undir 24 ára gerist ekki íslenskir ríkisborgarar sjálfkrafa um leið og þeir giftast/kvænast hérlendingi. Ég er kannski ekki hæf til að dæma um hvort þetta er réttmætur aldur en hversu margir skoðanafanatíkerar eru það? Og mér þykir rétt að fólk átti sig á að þetta er frumvarp um svokallaðar viðmiðunarreglur og sagt er að tillit verði tekið til þess hvort viðkomandi eigi afkvæmi eða búslóð eða fortíð saman. Auðvitað er mjög auðvelt að teygja viðmiðunarreglur og toga þar til þær passa utan um rammann sem maður vill hafa en það er ekki þar með sagt að það sé alltaf gert. Um daginn reit æstur maður í blöðin og hélt því fram að þetta væri að verða fasistaríki og "hvað ef Víkingasveitin ryðst inn á heimili þeirra og konan veit ekki hvaða tannkremstegund maðurinn hennar notar? Verður henni þá bara hent úr landi á þeirri forsendu að hún þekki ekki manninn sinn?" eða hvernig sem þetta var orðað. KOMMON!! ÉG veit ekki hvaða tannkremstegund ég nota! Hún er í svona hvítum túpum með bláum stöfum (eða grænum) sem standa sjálfar og er ekki Colgate en eitthvað sem byrjar á "Z" og ég þekki þegar ég sé þær. Og hárfroðan... Bara það sem ég finn og er ekki of dýrt. Nú er það einhver silfurlitur brúsi með fjólubláum stöfum. Mér finnst (án þess að ég hrapi að ályktunum) miiiiikið líklegra að spurningarnar séu eitthvað á þá leið á hvaða tíma makinn vakni til að fara í vinnuna, hvað hann vinni við eða hverskonar menntun hann hafi. Og þá er kannski ekki einu sinni verið að falast eftir réttum svörum heldur hvernig þessu er svarað. Ef maður býr með einhverjum, að ég tali nú ekki um maka, þá hlýtur maður að geta slumpað á slíkt án þess að verða óskaplega vandræðalegur eða fara í panikk.
Þetta orð "sjálfkrafa" er furðu merkilegt. Mér finnst persónulega asnalegt að hvítvoðungar skuli sjálfkrafa skrást við fæðingu í Þjóðkirkjuna ef móðir (faðir skiptir engu) er utan trúfélaga. En það er bara mitt álit. Mér finndist hinsvegar fáránlegt ef prestakallið sem mitt lögheimili tilheyrir skyldi sjálfkrafa sjá um mína útför þegar ég dey, þar sem ég tilheyri öðru trúfélagi. Og þetta er ekki dæmi út í loftið, ég veit til þess að þetta hafi gerst innan míns trúfélags. Eins hefur borið á því að fólk hafi flust úr Fríkirkjunni og úr Ásatrúarfélaginu yfir í Þjóðkirkjuna við flutning milli landshluta. Sjálfkrafa. Og fólkið ekki látið vita. Þessvegna finnst mér eðlilegt að einhverjar athugasemdir séu settar við hvað gerist sjálfkrafa og hvað ekki.

Ég tek samt fram að þetta útlendingafrumvarp má áreiðanlega endurskoða á einhvern hátt. Mér finnst bara óþolandi fólk sem ryðst fram á vígvöllinn baðandi öllum öngum og málandi skrattann á vegginn. Svona fólk sem myndar sér ekki skoðanir sjálft heldur fær þær frá öðrum og finnst það sem öllum öðrum finnst. Fólk sem hefur ekki áhuga á að heyra rök frá hinni hliðinni því það er svo upptekið að standa fast á sinni skoðun. Fólk sem getur ekki einu sinni fært rök fyrir sinni skoðun. Og ég er ekki alltaf kröfuhörð, "mér bara finnst það ekki rétt, það er mín tilfinning" er alveg réttmæt skoðun. Viðkomandi verður þá bara að gera sér grein fyrir að "mér finnst þetta í lagi, það er mitt mat/skoðun" eru þá alveg jafn gild mótrök og að það þurfa ekki allir að vera alltaf sömu skoðunar.
Það var eins með Kárahnjúkavirkjun. Vinkona mín lenti í því í partýi að vera allt að því úthrópuð þegar hún sagðist ekki tilbúin að mynda sér skoðun á virkjuninni þar sem hún þekkti ekki nógu vel til beggja hliða málsins. Nei. Hún var þá bara auðvaldssinni og fáviti. Sem voru því miður u.þ.b. einu rökin sem viðkomandi virkjunarandstæðingar gátu komið með. Að það væri bara ein rétt skoðun og það væri þeirra skoðun.

0 Álit yðar:

Skrifa ummæli

<< Home