föstudagur, maí 27, 2005

tilfinningakikk?

Í dag gerðist ég svo djörf að byrja á tiltekt í garðhúsi foreldra minna, með það fyrir augum að geta nýtt það sem vinnuaðstöðu (fyrir sjálfa mig). Eftir að hafa ryksugað gólfflötinn að mestu tók ég eftir því að neðan úr hárinu á mér hékk lítil gulgræn könguló eða dordingull. Eftir smávegis baráttu við aftaníþráðinn sem úr henni/honum lafði, því þessir óþokkar eru ósýnilegir en fjári sterkir miðað við það, fór ég að líta aðeins betur í kringum mig. Og viti menn! Uppi í lofti héngu nokkrar feitar köngulær og heill haugur af þessum gulgrænu. Ég sá mér ekki annað fært en að ryksuga hjörðina bara í burtu, það hefði tekið heila eilífð að ætla að tína hersinguna upp og henda út með handafli. Þegar ég svo hætti tiltekt fór ég svona að skanna mig upp og niður og kíkja í hárið til að sjá hvort þar kæmu nokkuð köngulær spígsporandi, ég átti að fara að syngja á vortónleikum í tónó og það væri heldur óskemmtilegt ef litlir laumufarþegar færu að dreifa sér um allan sal á tónleikunum. Meðan á þessari köngulóarleit stóð, áttaði ég mig á því að mér fyndist ekkert hræðilegt eða ógeðslegt eða hrollvekjandi að finna nokkra litla skratta á mér, ég myndi bara henda þeim út. Og það var ekki laust við að ég fyndi til vonbrigða, mér leið eins og ég hefði verið svipt allavega einum tóni í litrófi tilfinningaskalans. Út frá því fór ég að velta því fyrir mér hvort það sé þessvegna sem við (mannfólkið) sækjum í það að hneykslast (slúður og hneykslissögur) og hræðast og að bregða og að gera það sem er bannað, því það sé það sem litatóni líf manns? Do we need our regular emotional kick? Svari því sá sem veit. Og sá sem veit, veit hann/hún kannski hvort hægt er að finna þessari "neikvæðu" tilfinningaþörf annan farveg? Gæti maður kannski gert góðverk og fengið gæskukikk í staðinn fyrir svona pastellita væmniskennd? Ég bíð spennt.

0 Álit yðar:

Skrifa ummæli

<< Home