Tvö kíló af hamingju, takk
Peningar gera mann ekki hamingjusaman. Maður getur ekki keypt hamingjuna. Bölvað kjaftæði!! Þetta segir fólk sem telur sig mikla andans menn og laust við efnishyggju. Það eina sem má með sanni segja er að peningar séu ekki allt. Að mínu mati má skilgreina hamingju sem the absence of unhappiness. Því þó það að eiga stóra summu óhreyfða í bankanum geri mann ekki hamingjusaman, þá eykur það manni auðveldlega hamingju að þurfa ekki að hafa áhyggjur af peningum; að hafa efni á að gera sér glaðan dag; að geta farið til sjúkraþjálfara eða í nudd eða í heilsulind þegar manni líður illa í skrokknum; að geta sinnt hugðarefnum og áhugamálum sínum; að geta ferðaðst langi mann til, þó ekki sé nema helgarferð á fallegan stað á Íslandi; að geta klæðst þannig að manni líði vel (það er til vellíðunartilfinning sem kartöflusekkur eða snjáður jogginggalli geta einfaldlega ekki fært manni); að geta farið reglulega í klippingu langi mann til; að geta farið á tónleika eða í leikhús eða í bíó; að geta búið sómasamlega (ekki í kústaskáp með glugga); að hafa efni á góðum og hollum mat; og svo þar fram eftir götunum. Auðvitað þarf fólk líka að geta borið sig eftir björginni og ákveðið hvaða þjónustu skuli kaupa og hvað maður geti gert sjálfur, og auðvitað verður sumt ekki keypt. But you might be able to buy the ingredients. Hamingja er ekki bara það að aðrir elski mann, maður verður að geta elskað sig sjálfur og sýnt það í verki. Á sama hátt má segja að yndisleg fjölskylda geri mann ekki hamingjusaman ef maður kann ekki að njóta hennar. Yndisleg fjölskylda í ramma á skrifstofunni eða handan við ég-ég-ég-vegginn gerir sama gagn og stóra summan í bankanum, nema líklegast á mínusvöxtum.