laugardagur, júlí 30, 2005

Hvar er MINN réttur til heiðarleika annara?

Verzlunarmannahelgin gengin í garð ásamt árvissum herferðum gegn nauðgun [kvenfólks]. Sem er í sjálfu sér gott og blessað, betra væri ef karlmönnum væri heldur aldrei nauðgað og allra allra best ef engum væri nokkurntíman nauðgað. Sem minnir mig á, ég er þessa dagana að lesa bók sem heitir "Män kan inte våldtas" (Körlum er ekki hægt að nauðga) og vísar til þess að almennt sé talið að konur geti ekki nauðgað karlmönnum, og hvers vegna ekki, spyr aðalpersónan sig. Jú, líklega vegna þess að það hefur bara ekki hvarflað að fólki/konum. En hvernig stendur þá á því að sumum karlmönnum dettur það í hug að það sé í lagi að ryðjast óboðinn inn í líkama kvenna?
Hverjum datt það fyrst í hug? Og hvað hafði hann fyrir sér í þeim efnum að það bara væri í lagi? Myndi maður brjótast inn í hús og fara í gegnum persónulegar eigur og dagbækur fólks af því bara? Af því að það var enginn heima og því enginn sem bannaði mér það? Eða "because I could"? Sumir kannski. Ég veit ekki hvað væri hægt að gera til að breyta þessu viðhorfi sumra, að þeir séu bara hafnir yfir aðra og það sé ekki í þeirra verkahring að velta því fyrir sér hvað verður um þá sem þeir vaða yfir og/eða misnota. Hvað varð um almenna samkennd? Erum við virkilega orðin svona firrt?!?
En aftur að herferðum Verzlunarmannahelgarinnar. Oft hefur verið bent á að kvenfólk verði að gæta sín í klæðnaði og vera ekki of "ögrandi" í klæðaburði. Þá koma upp mótraddir sem kvarta yfir því að með því að hvetja til þess sé verið að koma sökinni á fórnarlambið og að konur hafi sinn rétt til að klæðast eftir sínu skapi og vilja. Sem er auðvitað rétt í sjálfu sér, auðvitað eigum við öll að hafa okkar meðfædda rétt á því að aðrir hegði sér heiðarlega gagnvart okkur. En mér finnst að það eigi samt að benda (kven-) fólki á það að klæðnaður geti haft eitthvað að segja við aðstæður sem þessar, það er eitt að vera í flegnum bol og stuttu pilsi þegar maður er allsgáður og í almennlegri aðstöðu til að berjast á móti og öskra og vera reiður, það er annað að vera í sama klæðnaði þegar maður er drukkinn og ekki í góðu sambandi við umheiminn. Sérstaklega þegar mótaðilinn er kannski líka vel drukkinn og ekki í góðu sambandi sjálfur.

Fyrir nokkrum árum var farið inn í bílinn minn að næturlagi, útvarpið/geislaspilarinn rifinn út og margir geisladiskar teknir. Lögreglan og tryggingar gerðu ekkert, sorrý, þú læstir ekki bílnum, sökin er þín. Jafnvel þó bíllinn hafi verið innst í löngu innkeyrslunni ykkar og það ætti ekki að fara á milli mála að þetta svæði væri ekki í almannaeign. Heimska fórnarlamb!! Hefðir átt að gæta þín betur! Svona hugsunarháttur almennings er, eins og nauðganir, þjóðfélagsleg sýking og þrátt fyrir að það ætti engum að finnast það sjálfsagt að æða inn í annara manna bíla eða hús og stela þar öllu steini léttara "just because I could", þá er svona fólk til og það engin ástæða til að auðvelda þeim verkið. Eða á nokkurn hátt stuðla að viðhaldi þeirrar grillu hjá þeim að skortur á mótmælum/baráttu sé nánast sama og samþykki. Og innbrot í bíla er ekki alltaf hægt að afsaka með því að þetta séu forfallnir dópistar sem geri hvað sem er fyrir næsta skammt, fyrir mörgum árum sá ég til alvöru innbrots í bíl (rúða spörkuð inn) á stóru bílaplani, þar sem fíkn stjórnaði ekki gerðum innbrotsaðila heldur meira bara ávani. Ég heyrði frá manni sem þekkti hann vel að gaurinn ætti nánast lager af bílaútvörpum heima hjá sér.

miðvikudagur, júlí 27, 2005

endemis vitleysa

Eins og glöggir hafa kannski tekið eftir, þá birtist nú skyndilega færsla sem (líklegast) er dagsett á mánudagsmorgun. Þá færslu reit ég téðan mánudagsmorgun og hélt ég hefði póstað, en í svefnrofunum hef ég víst bara vistað þetta sem uppkast. Í þessum sömu svefnrofum ók ég svo upp í Borgarnes og var bara að koma heim fyrir hálftíma síðan. En endilega látið ljós ykkar skína hvað varðar uppástungur að klukkuheiti.

mánudagur, júlí 25, 2005

hvað á barnið að heita?

Ég keypti mér nýja vekjaraklukku í gær, svona svaka fína með útvarpsvekjara og geislaspilara, og getur maður valið um hvort vaknað skuli til útvarps eður til ákveðins lags geisladisksins. Strax í gær ákvað ég að klukkan skyldi hljóta nafnið Brjánn, Brjánn Thomson. Fannst það fallegt og gjörvilegt nafn sem hæfði vel slíkri eðal-klukku. Nema hvað að þegar ég er lögst upp í rúm gjóa ég augunum si svona á klukkuna og þá rennur upp fyrir mér ljós. Brjánn virðist vera kvenkyns! Sé það málið (og sé hann ekki bara svona hrottalega kvenlegur Brjánn) þá gengur hið áðurvalda og ídeala nafn (örugglega konunganafn!) ekki, og auglýsist hérmeð eftir kvenkyns nöfnum sem gætu komið í staðinn.

Ef bíllinn er ekki bilaður eða bensíntankurinn götóttur, þá er ég á leið upp í Borgarnes á eftir! Gleðigleði.

miðvikudagur, júlí 20, 2005

Beljur og þingmannaskrattar!

Mér hafa borist til eyrna þær upplýsingar að það sé hinum háborna kynstofni íslenskra kúa að þakka að við Íslendingar stöndum ekki í sífelldu (árvissu) flakki milli sumar- og vetrartíma. Skömmu eftir seinna stríð, þegar Íslendingar vissu eigi gjörla hvað gera skyldi við svo nýfengið alvald en funduðu þess í stað og skráðu ný og breytt lög til að auka á sérstöðu lands og þjóðar, var fundað um það á Alþingi hvort breyta skyldi klukkunni eftir höfuðárstíðunum tveim. Niðurstaðan var sú að það skyldi ekki gert, kýrnar væru alltaf mjólkaðar á ákveðnum tímum dags og hvernig ættu þær að vita hvort klukkan væri samkvæmt sumri eða vetri? Það er svosem gott og blessað, en hvernig í ósköpunum datt alþingismönnum að taka svona afgerandi ákvörðun að sumri til?!? Nú erum við föst í sumartíma (klukkutíma á undan áætlun) um aldur og ævi.

vér erum víkingar!

Stakk mér til sunds í gær í Nauthólsvíkinni ásamt þeirri sem ekki má nefna þar sem hún er enn að ná sér eftir veikindi. Og þar sem við erum alvöru víkingar létum við okkur ekki nægja að fara í ídælda sjóinn heldur klifum við björgin háu og fórum í sund í alvöru íslenskum (ísköldum) sjó! Lofthiti: 14°C, sjóhiti 11°C. Og hvílíkur sársauki sem fylgdi því að halda handleggjum undir yfirborðinu! Ég hélt hann ætlaði aldrei að dvína. Fótleggir, kroppur, framhandleggir; lítið mál. Úlnliðir og upphandleggir; hrikalegt! En auðvitað vandist það svo á endanum.
Vorum ekki lengi í sjónum þetta skiptið, en næsta skipti, næsta skipti verður sko synt!

þriðjudagur, júlí 19, 2005

hvar eru svefnréttarfélögin núna?

Á myndinni hér að ofan má (vonandi) sjá að Ísland liggur ekki á hinni víðfrægu Greenwich-miðlínu sem klukkan okkar virðist þó vera stillt eftir. Eftir því sem ég fæ best séð þá erum við látin vakna klukkustund fyrr en líkamsklukka okkar segir til um, þannig að þegar Íslendingar mæta til vinnu klukkan 8, þá er hún í rauninni bara 7! Ég vil minn burtrænda morgunsvefnsklukkutíma!!!

Eitthvað er maður annars að klikka á reglulegum færslum í vefdagbók (en þeim mun duglegri við bréfskriftir), en það verður bara að hafa það. Ég hef það bak við eyrað. Annars var ég á vísindavef Háskólans og rakst þá á þessa stórskemmtilegu upptalningu á ýmsum samsettum orðum sem eru þeim eiginleikum búin að innihalda þrefalda (3x) samhljóða :
brunnníðingur
bögggjarn
falllóð
fimmmaður (mikið fyrir 5)
fimmmenningar
gubbbragð
gulllitaður
hasssljór
jukkkartöflur
kolllítill
popppottur
radddauður
rapppar
rasssetinn
rasssíður
rokkkona
rokkkóngur (Elvis, sem var líka sukkkappi)
rokkkjuði
ruggglaður (um barn)
sigggróinn
slikkkaffi (ódýrt!)
slikkkaramella
stafffróður (starfsmannastjóri)
svalllífi
vaggglaður (um ölvaðan mann)

fimmtudagur, júlí 07, 2005

tannburstun er vandaverk

Ég þarf að fara að einbeita mér meira að því sem ég er að gera. Það getur varla talist eðlilegt að tannbursta sig af svo miklum ofsa að maður missi tannburstann út úr munninum og upp í augað. En það gerðist núna áðan, í annað skipti á einni viku. Og það getur varla verið hollt til lengdar, það er allavega ekkert sérlega þægilegt að fá tannkrem í augun.