laugardagur, júlí 30, 2005

Hvar er MINN réttur til heiðarleika annara?

Verzlunarmannahelgin gengin í garð ásamt árvissum herferðum gegn nauðgun [kvenfólks]. Sem er í sjálfu sér gott og blessað, betra væri ef karlmönnum væri heldur aldrei nauðgað og allra allra best ef engum væri nokkurntíman nauðgað. Sem minnir mig á, ég er þessa dagana að lesa bók sem heitir "Män kan inte våldtas" (Körlum er ekki hægt að nauðga) og vísar til þess að almennt sé talið að konur geti ekki nauðgað karlmönnum, og hvers vegna ekki, spyr aðalpersónan sig. Jú, líklega vegna þess að það hefur bara ekki hvarflað að fólki/konum. En hvernig stendur þá á því að sumum karlmönnum dettur það í hug að það sé í lagi að ryðjast óboðinn inn í líkama kvenna?
Hverjum datt það fyrst í hug? Og hvað hafði hann fyrir sér í þeim efnum að það bara væri í lagi? Myndi maður brjótast inn í hús og fara í gegnum persónulegar eigur og dagbækur fólks af því bara? Af því að það var enginn heima og því enginn sem bannaði mér það? Eða "because I could"? Sumir kannski. Ég veit ekki hvað væri hægt að gera til að breyta þessu viðhorfi sumra, að þeir séu bara hafnir yfir aðra og það sé ekki í þeirra verkahring að velta því fyrir sér hvað verður um þá sem þeir vaða yfir og/eða misnota. Hvað varð um almenna samkennd? Erum við virkilega orðin svona firrt?!?
En aftur að herferðum Verzlunarmannahelgarinnar. Oft hefur verið bent á að kvenfólk verði að gæta sín í klæðnaði og vera ekki of "ögrandi" í klæðaburði. Þá koma upp mótraddir sem kvarta yfir því að með því að hvetja til þess sé verið að koma sökinni á fórnarlambið og að konur hafi sinn rétt til að klæðast eftir sínu skapi og vilja. Sem er auðvitað rétt í sjálfu sér, auðvitað eigum við öll að hafa okkar meðfædda rétt á því að aðrir hegði sér heiðarlega gagnvart okkur. En mér finnst að það eigi samt að benda (kven-) fólki á það að klæðnaður geti haft eitthvað að segja við aðstæður sem þessar, það er eitt að vera í flegnum bol og stuttu pilsi þegar maður er allsgáður og í almennlegri aðstöðu til að berjast á móti og öskra og vera reiður, það er annað að vera í sama klæðnaði þegar maður er drukkinn og ekki í góðu sambandi við umheiminn. Sérstaklega þegar mótaðilinn er kannski líka vel drukkinn og ekki í góðu sambandi sjálfur.

Fyrir nokkrum árum var farið inn í bílinn minn að næturlagi, útvarpið/geislaspilarinn rifinn út og margir geisladiskar teknir. Lögreglan og tryggingar gerðu ekkert, sorrý, þú læstir ekki bílnum, sökin er þín. Jafnvel þó bíllinn hafi verið innst í löngu innkeyrslunni ykkar og það ætti ekki að fara á milli mála að þetta svæði væri ekki í almannaeign. Heimska fórnarlamb!! Hefðir átt að gæta þín betur! Svona hugsunarháttur almennings er, eins og nauðganir, þjóðfélagsleg sýking og þrátt fyrir að það ætti engum að finnast það sjálfsagt að æða inn í annara manna bíla eða hús og stela þar öllu steini léttara "just because I could", þá er svona fólk til og það engin ástæða til að auðvelda þeim verkið. Eða á nokkurn hátt stuðla að viðhaldi þeirrar grillu hjá þeim að skortur á mótmælum/baráttu sé nánast sama og samþykki. Og innbrot í bíla er ekki alltaf hægt að afsaka með því að þetta séu forfallnir dópistar sem geri hvað sem er fyrir næsta skammt, fyrir mörgum árum sá ég til alvöru innbrots í bíl (rúða spörkuð inn) á stóru bílaplani, þar sem fíkn stjórnaði ekki gerðum innbrotsaðila heldur meira bara ávani. Ég heyrði frá manni sem þekkti hann vel að gaurinn ætti nánast lager af bílaútvörpum heima hjá sér.

0 Álit yðar:

Skrifa ummæli

<< Home