Yfirlit síðustu 10 daga eða svo.Á mánudaginn fyrir einmitt 10 dögum síðan hlaut ég arf. Og það var ekkert smáræði, heldur heilt embætti. Ég er nú [konunglegur] yfirmaður búningadeildar Lúðrasveitar Hafnarfjarðar. Því fylgir, auk hins háæruverðuga titils, mikil vinna, mikið vesen og endalausar útréttingar eftir því sem ég best fæ séð. Búningamálin hafa semsagt verið í hálfgerðu lamasessi í mörg ár. Fyrir þá sem ekki þekkja til samanstendur búningur LH af buxum og jakka, fjólubláum að lit með gylltum borðum hér og þar, hnöppum að framan og snúrum á öxl. Nema hvað, þar sem óskaplega lítil hefð er fyrir einkennisbúningum á Íslandi þá er enginn birgir sem sér um að stöðugt framboð sé á gylltum hnöppum og borðum og snúrum og þessháttar. Þannig að þegar þurft hefur að bæta í búningaflotann hafa forverar mínir (af hverjum ég er sjálf einn) gengið á milli verzlana í leit að einhverju í svipuðum stíl og hið upprunalega. Útkoman er sú að nú eru í gangi 3 gerðir af borðum og jafn margar gerðir af hnöppum og má maður þakka fyrir að enn eru allir búningarnir úr samskonar (og samlitu) efni. En það sem ég, sem núverandi formaður, hef fram yfir forvera mína er hinn óneitanlega stóri kostur að nú á lúðrasveitin loksins fjármagn til að láta sauma nýja búninga. Áður var málunum bara bjargað með því að þeir sem ekki komust í einhverja spilamennsku lánuðu öðrum sem komust, búningana sína. Svo var bara treyst á að forföll væru í samræmi við búningaskort. En það þýðir líka að nú er komin alvöru krafa um að búningamálum verði bjargað, í síðasta lagi fyrir vorið. Niðurstaða: ég fékk bjarnargreiða í arf.Enn af lúðrasveitinni. Síðastliðinn föstudag í tilefni Hansadaga í Hafnarfirðir átti þetta sér stað:"19:30-20:00 Vígsla á göngu- og hjólastíg. Opnun á Hansaborgasýningu og ljós tendruð á stígnum. Flugeldasýning, að henni lokinni gengur skrúðganga með Lúðrasveit Hafnarfjarðar í broddi fylkingar að Íþróttahúsi Strandgötu. "Og þarna, við opnun stígsins, lékum við af fingrum fram í nístingskulda og haustmyrkri, við pínulitla týru frá ljósastaur. Það sagði sig sjálft að við tækjum bara lög sem við kynnum nánast utan að, því það var ekki nóg með að maður sæi varla á marsabókina, heldur glampaði líka óskaplega auðveldlega á hana. Og oft. Því voru 4-5 lög spiluð, þar af tvö endurtekin eins oft og samviska leyfði. En lengi getur vont versnað. Í hinni 2-300 m löngu skrúðgöngu var nánast ekkert ljós. Ljósa hliðin á því var náttúrulega sú að það glampaði heldur ekkert á nótnabækurnar, en það kom út á eitt. Og mesta furða hvernig til tókst, miðað við aðstæður.
I've seen life, the universe and everything
Mætti í Smekkleysu í dag og hlýddi þar á hina geysifrábæru 200 (Tveyhundrað) frá Færeyjum. Þeir spila á Grandrokk á eftir viku (þann 22.) svo kannski maður láti sjá sig þar líka. Alltaf gaman á Grandrokk.Fór svo í heimsókn til bróður míns og sá endimörk alheimsins. Því get ég með sanni sagt "now I've seen everything, and from every angle". Reyndar úr það mikilli fjarlægð að ekki er víst að ég hafi tekið eftir öllu sem fram fór eða nákvæmri staðsetningu þess, en ég hef séð það, svo mikið er víst. Svo "zoom"-uðum við inn og skoðuðum stjörnumerkin og staðsetningu stjarnanna, pláneturnar í okkar sólkerfi og fleira í þeim dúr. Ja, þær geta verið til fjár, ferðinar til bróður míns.
viltu kaupa dót á tombólu?
Tombóla [dk. tombola]: hlutaveltaHlutavelta : e.k. happdrætti þar sem dregið er um tölusetta seðla er vísa á vinning.Svo mælir hið vísa rit Íslensk orðabók [M & M, Rvk. 1993]. Þegar ég var krakki gekk þetta einmitt svona fyrir sig. Maður gekk í hús og safnaði alls kyns dóti og drasli á tombólu, yfirleitt til styrktar einhverri hjálparstofnun eða góðgerðarsamtökum; ,,Áttudótátombólutilstyrktar *gasp* Rauðakross'Íslands?" Fólk tók nefnilega yfirleitt betur í svona sníkjur og vesen ef það var til styrktar góðu málefni. Og keypti líka frekar miða. Því allt var þetta gert upp á sportið fremur en gróða.Svo merkti maður alla hluti vandlega með tölusettum seðlum sem áttu sér svo tvíbura í einhverjum kassa eða boxi. Svo voru hengdir upp miðar í hverfisbúðinni eða bakaríinu sem tilgreindu stað og tíma er tombólan skyldi fara fram. Ef maður var góður eða gerði þetta seinni part sumars var því gjarnan bætt við að það væru ,,engin núll" því það trekkti að. Núllin komst maður frekar upp með í byrjun sumars, áður en allir voru orðnir löngu þreyttir á þessu sífellda tombóluveseni hverja helgi. Svo var hver miði seldur á vægu verði, og þar sem þetta var happadrætti þá keypti hver viðskiptavinur kannski 5 miða eða fleiri, í von um að vinna nú allavega einn skemmtilegan hlut. Nú sér maður börn hér og þar við matvöruverslanir eða verslunarkjarna sem bjóða manni dót á tombólu til kaups! Það er ekki tombóla! Hvar er happadrættið? Hvar er spennan? Þetta nálgast það bara að vera Kolaportssala... Ég vil miklu fremur kaupa 2 miða á 50-kall stykkið og fá eitthvað sem ég hef enga þörf fyrir og hefði aldrei keypt sjálf, og upplifa þá spennu happadrættisins en að velja mér einhverja skrautmuni sem ég hef svo innilega enga þörf fyrir! Haldið þið að Kinder-eggin væru eins vinsæl og þau hafa verið í gegnum tíðina ef það fylgdi þeim lítið ,,leikfang að eigin vali", í stað hins óvænta sem inni í þeim leynist? Ég stórefa það! Ég vil fá alvöru hlutaveltu aftur!!
sakramenti gatna, myndverka, ökutækja ofl.
Skírn er eitt af sjö sakramentum [sakramenti = þjónusta] kaþólskrar kirkju, segir í Íslenskri orðabók [M & M, Rvk. 1993]. Að taka skírn er að kristnast, segir á sama stað. Skírn er hreinsunarathöfn (sbr. heiðskír himinn; skíra gull = hreint, óblandað gull) og er, að mér vitandi, undantekningarlaust framkvæmd af presti þess kristna söfnuðar sem taka skal barnið inn í. Skemmri skírn mega svo allir kristnir menn framkvæma svo ólífvænt barn deyji ekki óskírt. Nafngift er hins vegar allt annar handleggur og barn getur gengist undir nafngift (hlotið nafn) löngu á undan skírn. Eins er hægt að gefa húsum og bílum og myndverkum og nær öllu milli himins og jarðar, nafn. En ég leyfi mér að efast um að forstöðumenn safnaða taki í mál að taka hluti og verk manna inn í söfnuðinn með svo formlegum hætti sem skírn er. Þessvegna fer það afar mikið í taugarnar á mér þegar fólk talar um að ,,skíra málverk" eða ,,skíra hús" eða spyr ,,Hvað ætlið þið að skíra barnið?" Nær væri að spyrja hvort barnið yrði yfirhöfuð skírt, og svo hvað það héti eða hvort búið væri að opinbera nafnið. En svo er [oft þetta sama] fólk að fjargviðrast yfir því að samkynhneigðir geti ekki ,,gengið í hjónaband" því að það hugtak eigi aðeins við um lögfest og skjalfest samband karls OG konu. Og því eru allir settir undir sama hatt, kristnir eður ei, að þeir [forstöðumenn annara safnaða, sýslumenn eða skipstjórar] geta ekki gefið tvo einstaklinga af sama kyni í hjónaband því það sé bara ekki hægt. Hvorki í orði né á borði að því er virðist (,,hjónaband samkynhneigðra" sé því oxymoron [sjá neðar]). En skírn, já hún gengur fyrir allt milli himins og jarðar. Ætli maður geti þá fermt húsið sitt áratug eða svo eftir að maður,,skírði" það?Á 14. ári er barnið komið til manns og þá er talin þörf á staðfestingu skírnarsáttmálans. Gera fermingarbörn sér almennilega grein fyrir því hvaða sáttmála þau eru að staðfesta og hvað það felur í sér? Ég minnist þess ekki að mér hafi verið kynnt það neitt sérstaklega þegar ég fermdist, ég fermdist bara eins og allir aðrir. Sem náttúrulega á ekki að vera sjálfgefið að fólk geri, og mér finnst það töluvert hugsunarleysi hjá fólki að spyrja hvenær þessi eða hinn fermist / hafi fermst. Það er miklu eðlilegra að spyrja bara hreint út hvað krakkinn sé gamall. Ég geri mér fulla grein fyrir því að ég er ekki alsaklaus hvað þetta varðar, en það var í ,,denn" og nú er ég eldri og hef hugsað meira.
Mikið getur sumt farið í taugarnar á manni stundum. Næst ætla ég að tjá mig um tombólu, og verð örugglega ekkert glaðari. PirrPirr.
the road to hell is paved with good intentions
Þegar ég ,,stofnaði" þetta blogg þá var það af því að ég ætlaði að verða rithöfundur og vantaði æfingu.
Það er reyndar lygi, ég byrjaði á þessu áður en ég fór til Grikklands svo ég þyrfti ekki að skrifa eins mörg bréf, en ég mig langaði samt að sjá hvort ég væri þess búin að geta komist vel og skemmtilega að orði. Ég tel mér nefnilega reglulega trú um að ég geti skrifað skemmtilega texta auk þess sem mér finnast eigin vangaveltur oft æði gáfulegar. Kunnugir þekkja vel hvernig tekist hefur til við daglegar færslur. Síðar skráði ég mig inn á rithringur.is í þeim tilgangi að æfa skriftarvöðvann. Ég held ég eigi 1 gagnrýni, 3 æfingar og 2 komment þar inni. Eða eitthvað álíka. Engin saga verið send, ég er því sem næst óvirkur meðlimur og ég fer inn á síðuna kannski 20 sinnum á ári.Bréfaskriftir við útlendinga. Þær hóf ég í sumar í því skyni að þjálfa upp enskuna í rituðu máli, ásamt því að rifja upp þýzku og frönsku. Ég hef náð að halda sæmilegu flæði við tvo aðila, en utan þess er ég fremur skuldug. Fyrir utan öll persónuleg bréf til vina víða erlendis.Mér sýnist á öllu sem ég sé á hraðri leið til helvítis.