sakramenti gatna, myndverka, ökutækja ofl.
Skírn er eitt af sjö sakramentum [sakramenti = þjónusta] kaþólskrar kirkju, segir í Íslenskri orðabók [M & M, Rvk. 1993]. Að taka skírn er að kristnast, segir á sama stað.
Skírn er hreinsunarathöfn (sbr. heiðskír himinn; skíra gull = hreint, óblandað gull) og er, að mér vitandi, undantekningarlaust framkvæmd af presti þess kristna söfnuðar sem taka skal barnið inn í. Skemmri skírn mega svo allir kristnir menn framkvæma svo ólífvænt barn deyji ekki óskírt. Nafngift er hins vegar allt annar handleggur og barn getur gengist undir nafngift (hlotið nafn) löngu á undan skírn. Eins er hægt að gefa húsum og bílum og myndverkum og nær öllu milli himins og jarðar, nafn. En ég leyfi mér að efast um að forstöðumenn safnaða taki í mál að taka hluti og verk manna inn í söfnuðinn með svo formlegum hætti sem skírn er. Þessvegna fer það afar mikið í taugarnar á mér þegar fólk talar um að ,,skíra málverk" eða ,,skíra hús" eða spyr ,,Hvað ætlið þið að skíra barnið?" Nær væri að spyrja hvort barnið yrði yfirhöfuð skírt, og svo hvað það héti eða hvort búið væri að opinbera nafnið.
En svo er [oft þetta sama] fólk að fjargviðrast yfir því að samkynhneigðir geti ekki ,,gengið í hjónaband" því að það hugtak eigi aðeins við um lögfest og skjalfest samband karls OG konu. Og því eru allir settir undir sama hatt, kristnir eður ei, að þeir [forstöðumenn annara safnaða, sýslumenn eða skipstjórar] geta ekki gefið tvo einstaklinga af sama kyni í hjónaband því það sé bara ekki hægt. Hvorki í orði né á borði að því er virðist (,,hjónaband samkynhneigðra" sé því oxymoron [sjá neðar]).
En skírn, já hún gengur fyrir allt milli himins og jarðar. Ætli maður geti þá fermt húsið sitt áratug eða svo eftir að maður,,skírði" það?
Á 14. ári er barnið komið til manns og þá er talin þörf á staðfestingu skírnarsáttmálans. Gera fermingarbörn sér almennilega grein fyrir því hvaða sáttmála þau eru að staðfesta og hvað það felur í sér? Ég minnist þess ekki að mér hafi verið kynnt það neitt sérstaklega þegar ég fermdist, ég fermdist bara eins og allir aðrir. Sem náttúrulega á ekki að vera sjálfgefið að fólk geri, og mér finnst það töluvert hugsunarleysi hjá fólki að spyrja hvenær þessi eða hinn fermist / hafi fermst. Það er miklu eðlilegra að spyrja bara hreint út hvað krakkinn sé gamall. Ég geri mér fulla grein fyrir því að ég er ekki alsaklaus hvað þetta varðar, en það var í ,,denn" og nú er ég eldri og hef hugsað meira.
Mikið getur sumt farið í taugarnar á manni stundum. Næst ætla ég að tjá mig um tombólu, og verð örugglega ekkert glaðari. PirrPirr.
0 Álit yðar:
Skrifa ummæli
<< Home