miðvikudagur, október 12, 2005

viltu kaupa dót á tombólu?

Tombóla [dk. tombola]: hlutavelta
Hlutavelta : e.k. happdrætti þar sem dregið er um tölusetta seðla er vísa á vinning.

Svo mælir hið vísa rit Íslensk orðabók [M & M, Rvk. 1993]. Þegar ég var krakki gekk þetta einmitt svona fyrir sig. Maður gekk í hús og safnaði alls kyns dóti og drasli á tombólu, yfirleitt til styrktar einhverri hjálparstofnun eða góðgerðarsamtökum; ,,Áttudótátombólutilstyrktar *gasp* Rauðakross'Íslands?" Fólk tók nefnilega yfirleitt betur í svona sníkjur og vesen ef það var til styrktar góðu málefni. Og keypti líka frekar miða. Því allt var þetta gert upp á sportið fremur en gróða.
Svo merkti maður alla hluti vandlega með tölusettum seðlum sem áttu sér svo tvíbura í einhverjum kassa eða boxi. Svo voru hengdir upp miðar í hverfisbúðinni eða bakaríinu sem tilgreindu stað og tíma er tombólan skyldi fara fram. Ef maður var góður eða gerði þetta seinni part sumars var því gjarnan bætt við að það væru ,,engin núll" því það trekkti að. Núllin komst maður frekar upp með í byrjun sumars, áður en allir voru orðnir löngu þreyttir á þessu sífellda tombóluveseni hverja helgi. Svo var hver miði seldur á vægu verði, og þar sem þetta var happadrætti þá keypti hver viðskiptavinur kannski 5 miða eða fleiri, í von um að vinna nú allavega einn skemmtilegan hlut.

Nú sér maður börn hér og þar við matvöruverslanir eða verslunarkjarna sem bjóða manni dót á tombólu til kaups! Það er ekki tombóla! Hvar er happadrættið? Hvar er spennan? Þetta nálgast það bara að vera Kolaportssala... Ég vil miklu fremur kaupa 2 miða á 50-kall stykkið og fá eitthvað sem ég hef enga þörf fyrir og hefði aldrei keypt sjálf, og upplifa þá spennu happadrættisins en að velja mér einhverja skrautmuni sem ég hef svo innilega enga þörf fyrir! Haldið þið að Kinder-eggin væru eins vinsæl og þau hafa verið í gegnum tíðina ef það fylgdi þeim lítið ,,leikfang að eigin vali", í stað hins óvænta sem inni í þeim leynist? Ég stórefa það! Ég vil fá alvöru hlutaveltu aftur!!

0 Álit yðar:

Skrifa ummæli

<< Home