fimmtudagur, október 27, 2005

Yfirlit síðustu 10 daga eða svo.
Á mánudaginn fyrir einmitt 10 dögum síðan hlaut ég arf. Og það var ekkert smáræði, heldur heilt embætti. Ég er nú [konunglegur] yfirmaður búningadeildar Lúðrasveitar Hafnarfjarðar. Því fylgir, auk hins háæruverðuga titils, mikil vinna, mikið vesen og endalausar útréttingar eftir því sem ég best fæ séð. Búningamálin hafa semsagt verið í hálfgerðu lamasessi í mörg ár. Fyrir þá sem ekki þekkja til samanstendur búningur LH af buxum og jakka, fjólubláum að lit með gylltum borðum hér og þar, hnöppum að framan og snúrum á öxl. Nema hvað, þar sem óskaplega lítil hefð er fyrir einkennisbúningum á Íslandi þá er enginn birgir sem sér um að stöðugt framboð sé á gylltum hnöppum og borðum og snúrum og þessháttar. Þannig að þegar þurft hefur að bæta í búningaflotann hafa forverar mínir (af hverjum ég er sjálf einn) gengið á milli verzlana í leit að einhverju í svipuðum stíl og hið upprunalega. Útkoman er sú að nú eru í gangi 3 gerðir af borðum og jafn margar gerðir af hnöppum og má maður þakka fyrir að enn eru allir búningarnir úr samskonar (og samlitu) efni. En það sem ég, sem núverandi formaður, hef fram yfir forvera mína er hinn óneitanlega stóri kostur að nú á lúðrasveitin loksins fjármagn til að láta sauma nýja búninga. Áður var málunum bara bjargað með því að þeir sem ekki komust í einhverja spilamennsku lánuðu öðrum sem komust, búningana sína. Svo var bara treyst á að forföll væru í samræmi við búningaskort. En það þýðir líka að nú er komin alvöru krafa um að búningamálum verði bjargað, í síðasta lagi fyrir vorið.
Niðurstaða: ég fékk bjarnargreiða í arf.

Enn af lúðrasveitinni. Síðastliðinn föstudag í tilefni Hansadaga í Hafnarfirðir átti þetta sér stað:
"19:30-20:00 Vígsla á göngu- og hjólastíg. Opnun á Hansaborgasýningu og ljós tendruð á stígnum. Flugeldasýning, að henni lokinni gengur skrúðganga með Lúðrasveit Hafnarfjarðar í broddi fylkingar að Íþróttahúsi Strandgötu. "
Og þarna, við opnun stígsins, lékum við af fingrum fram í nístingskulda og haustmyrkri, við pínulitla týru frá ljósastaur. Það sagði sig sjálft að við tækjum bara lög sem við kynnum nánast utan að, því það var ekki nóg með að maður sæi varla á marsabókina, heldur glampaði líka óskaplega auðveldlega á hana. Og oft. Því voru 4-5 lög spiluð, þar af tvö endurtekin eins oft og samviska leyfði. En lengi getur vont versnað. Í hinni 2-300 m löngu skrúðgöngu var nánast ekkert ljós. Ljósa hliðin á því var náttúrulega sú að það glampaði heldur ekkert á nótnabækurnar, en það kom út á eitt. Og mesta furða hvernig til tókst, miðað við aðstæður.

0 Álit yðar:

Skrifa ummæli

<< Home