miðvikudagur, nóvember 30, 2005

Yndisseiður

Jæja, börnin mín blíð og smá.
Ég hef ekkert að segja, en þar sem netið býður upp á nær óendanlega möguleika til upplýsingaflæðis þá ætla ég að notfæra mér það og ,,plögga'' vinafólk mitt sem er með vefverslunina Yndisseiður og selur þar eigin framleiðslu á handunnum vörum úr náttúrulegu hráefni; baðbombur og baðsölt og sápur og olíur o.fl. Er þetta ekki eitthvað sem væri tilvalið til jóla- og tækifærisgjafa?

Tók einhver eftir því að ofangreind færsla inniheldur aðeins 3 punkta, þar af tvo í skammstöfun. Að auki innihélt hún tvær kommur, eina ,,semikommu'' (?) og eitt spurningarmerki.

sunnudagur, nóvember 27, 2005

Ambögur í fjölmiðlum

Þar sem ég sat og snæddi morgunverð og fletti í gegnum Moggann, rak ég augun í heilsíðuauglýsingu frá Veiðihorninu. Efst á henni segir orðrétt: ,,Nú getur þú látið þig hlakka til sumarsins því það er stutt til jóla" Látið þig hlakka?!? LÁTIÐ þig hlakka?!?? ,,Ég hlakka" rétt eins og ,,ég fer". Það dytti engum í hug að láta út úr sér ambögu á borð við ,,Nú getur þú látið þig fara í sumarbústað um helgina"; maður getur bara farið. Eins getur maður bara hlakkað til einhvers. Maður ,,lætur sig" ekki hlakka.
uppfærsla: Önnur tillaga að augl.texta væri: ,,Nú getur þú farið að hlakka til sumarsins ..."

Fyrir téðan morgunverð átti ég stund með Fréttablaðinu. Í Fréttum af fólki er m.a. lítil og ljót málsgrein. Hún hljóðar svo: ,,Tom Cruise og Katie Holmes ætla að bíða eftir að barnið þeirra fæðist þangað til þau ákveða að giftast." Ésús. Af samhenginu við annan texta má skilja að þau ætli að bíða með að ákveða brúðkaupsdag þar til barnið er fætt. En hver þýðir svona lagað?!??

fimmtudagur, nóvember 24, 2005

Dagbók ...

Grimma leirtaushöndin hefur enn á ný tekið við stjórn á 11B. Nú er engum vært.

laugardagur, nóvember 19, 2005

Ég heyri raddir. Enn sem komið er er það óttalegt ruglumbull sem frá þeim kemur. Ég ætla að koma mér í rúmið og fara að sofa áður en ég átta mig á hvað þær eru í raun og veru að segja.

Þú veizt...

Þú veizt að þú ert á meðal nörda þegar þú heyrir setningar á borð við "Já, en þau eru líka vinir mínir í raunheimum...!"

Samlokur. Ég hef aldrei kunnað að opna umbúðirnar af Lúxus-samlokum Sóma svo vel fari. En núna áðan lærði ég það. Ég las leiðbeiningarnar.

þriðjudagur, nóvember 15, 2005

Nú er ég mikil áhugamanneskja um barnabækur og gleðst mikið þegar ég kemst í kynni við bækur sem eru myndskreyttar á fallegan og áhugaverðan hátt. Auðvitað er það álitamál hvað er fallegt og hvað er það ekki, en sem stendur skulum við miða við álit mitt. Þessi áhugi birtist einkum á þann hátt að komi ég inn í þar til gerðar verzlanir þá rýk ég til og tek jafnvel þrí- eða fjórstökk sjái ég myndskreyttar bækur sem voru mér áður ókunnar. Móðir mín heldur því reyndar fram að ég hafi aldrei vaxið upp úr barnabókunum og það kann að vera rétt. En þar sem almennur bókmenntasmekkur minn virðist ekki hafa beðið skaða af þá vona ég að það teljist mér til lítilla vansa. Mér finnst fátt eins ánægjulegt og góðar myndskreytingar/myndlýsingar í bókum, en á sama hátt finnst mér líka ægilega leiðinlegt og allt að því pirrandi þegar myndirnar standast ekki væntingar mínar, eða þegar mér finnast þær hreinlega ljótar eða illa úthugsaðar. [hér gæti komið fýlukarl]
Nema hvað. Um daginn var ég í verzlun hér í bæ sem selur afar áhugaverðar bækur, ásamt einhverju hlutverkaleikja-spila-smákarla-dóti sem ég kann minna að meta og alls engin deili á. Og þar rakst ég á barnabók. Um vampýrur. Og mikið voru teikningarnar flottar. Mikið óskaplega voru þær skemmtilegar. Og hjarta mitt tók lítið valhopp af gleði. En mig rak heldur betur í rogastans þegar ég renndi augunum yfir lesmálið, sem var á ensku. Mikið óskaplega var það hrottalega leiðinlegt!! Mikið óskaplega hefði ég verið til í að endurskrifa alla bókina svo hún færi betur við myndirnar. [án alls yfirlætis, ég er bara viss um að ég gæti gert betur] Og mikið óóóskaplega var textinn leiðinlegur! Hann var svo leiðinlegur að ég verð að taka það fram tvisvar.

Þessu hef ég ekki lent í áður. Ekki svona hrikalegum vonbrigðum með texta. Og ég grét í sálu minni.

taf
You're taffy!
! You're a clever and kind person,
but you tend to hold grudges. You are not big
on dishing out forgiveness.

Which kind of candy are you?