þriðjudagur, nóvember 15, 2005

Nú er ég mikil áhugamanneskja um barnabækur og gleðst mikið þegar ég kemst í kynni við bækur sem eru myndskreyttar á fallegan og áhugaverðan hátt. Auðvitað er það álitamál hvað er fallegt og hvað er það ekki, en sem stendur skulum við miða við álit mitt. Þessi áhugi birtist einkum á þann hátt að komi ég inn í þar til gerðar verzlanir þá rýk ég til og tek jafnvel þrí- eða fjórstökk sjái ég myndskreyttar bækur sem voru mér áður ókunnar. Móðir mín heldur því reyndar fram að ég hafi aldrei vaxið upp úr barnabókunum og það kann að vera rétt. En þar sem almennur bókmenntasmekkur minn virðist ekki hafa beðið skaða af þá vona ég að það teljist mér til lítilla vansa. Mér finnst fátt eins ánægjulegt og góðar myndskreytingar/myndlýsingar í bókum, en á sama hátt finnst mér líka ægilega leiðinlegt og allt að því pirrandi þegar myndirnar standast ekki væntingar mínar, eða þegar mér finnast þær hreinlega ljótar eða illa úthugsaðar. [hér gæti komið fýlukarl]
Nema hvað. Um daginn var ég í verzlun hér í bæ sem selur afar áhugaverðar bækur, ásamt einhverju hlutverkaleikja-spila-smákarla-dóti sem ég kann minna að meta og alls engin deili á. Og þar rakst ég á barnabók. Um vampýrur. Og mikið voru teikningarnar flottar. Mikið óskaplega voru þær skemmtilegar. Og hjarta mitt tók lítið valhopp af gleði. En mig rak heldur betur í rogastans þegar ég renndi augunum yfir lesmálið, sem var á ensku. Mikið óskaplega var það hrottalega leiðinlegt!! Mikið óskaplega hefði ég verið til í að endurskrifa alla bókina svo hún færi betur við myndirnar. [án alls yfirlætis, ég er bara viss um að ég gæti gert betur] Og mikið óóóskaplega var textinn leiðinlegur! Hann var svo leiðinlegur að ég verð að taka það fram tvisvar.

Þessu hef ég ekki lent í áður. Ekki svona hrikalegum vonbrigðum með texta. Og ég grét í sálu minni.

0 Álit yðar:

Skrifa ummæli

<< Home