Morituri te salutamus! *
Ritsjórar DV búnir að segja af sér. Nýr ritstjóri tekinn við. Nýir og bjartari tímar framundan. Eða svo vonum við.
Síðast póstaði ég fjöldasendan póst sem mér barst og hvatti fólk til að setja nafn sitt á undirskriftalista vegna skrifa DV, ég nenni ekki að útlista þetta nánar þar sem flestir vita væntanlega um hvað er að ræða.
Nema hvað, að þessi tiltekna færsla hefur sankað að sér mun fleiri og ítarlegri "kommentum" en nokkur önnur, og ég veit ekki hvort ég á að taka því sem persónulegri höfnun, að það sem einhver annar skrifar og ég afrita-lími á mína síðu skuli vekja meiri og djúpstæðari viðbrögð en nokkuð sem mér dettur sjálfri í hug. Hitt er þó kannski líklegra að málefnið sem sú færsla tengdist hafi eitthvað haft um það að segja. Kannski ég mæri Kárahnjúkavirkjun næst þegar mig vantar líf á bloggið.
Hvað umfjöllun DV og sjálfsvíg hins meinta misnotara varðar, þá eru það mun fremur þau meðöl sem DV beitti heldur en það að "flett hafi verið ofan af kauða" sem fara fyrir brjóstið á mér. Mér finnst það nákvæmlega engin afsökun að segja að svona fréttir höfði til fólksins, fólkið hafi rétt á að vita (fólk hefur líka rétt á almennum réttarhöldum í stað dómstóli götunnar (e. lynch mob)) og að fólk kaupi/lesi þetta. "Lýðurinn vill þetta!" voru líka rökin fyrir hringleikjahúsum Rómverja á sínum tíma, keisarar áttu það á hættu að tapa fylgi ef þeir sáu þegnum sínum ekki fyrir nægum blóðsúthellingum í hringnum. Og auðvitað vill fólk alltaf meira, it's a flaw in the design. Engum (vona ég) dytti í hug að dæla sælgæti í leikskólabörn og hvítvoðunga á þeim forsendum að þetta væri það sem þau vildu. Og alltaf að auka skammtinn því "þeim finnst þetta æðislegt!"
Hinni vestrænu mannskepnu er það einhvernveginn eðlislægt að gleðjast yfir óförum annara og nærast á slúðri og njóta þess að hneykslast, en mér finnst ENGIN ÁSTÆÐA að ala þetta upp í fólki og auka ef eitthvað er!!
* Við sem skulum deyja, heilsum þér.
Ávarp skylmingarþræla til keisara.
(Í alvöru Elín, ég trúði því að þú fílaðir DV!)
2 Álit yðar:
Áskorunarglugginn verður uppi um sinn, mér og öðrum til yndisauka.
Já, blind trú á markaðsöflin og svölun eftirspurnar er ekkert sérlega kræsileg. Samlíkingin við börnin og sælgætið er góð, en frjálshyggjusinnar myndu segja á móti að fullorðið fólk er ekki börn, og því megi það gera hvað sem því dettur í hug, svo lengi sem það skaðar ekki aðra. Hið sama gildir um hringleikahúsin - þar voru svo sannarlega margar hræður skaðaðar allverulega öðrum til skemmtunar.
En jafnvel þótt við höldum okkur innan þessa þrönga ramma skaðleysis, þá er mjög erfitt að halda því fram að sá fréttaflutningur sem DV hefur haldið uppi undanfarið skaði engan. Ónei. Fólk á að hugsa sig tvisvar um áður en það kaupir blöð sem gera svo illa út á gróusögur, rógburð og mannlegan ömurleika.
Þess fyrir utan er ég langt frá því að vera frjálshyggjumaður, þar sem ég tel frjálshyggju vera ógeðfellda hugmyndafræði sem skortir allt göfuglyndi og trú á samkennd mannskepnunnar gangvart öðrum. En það er önnur saga.
Skrifa ummæli
<< Home