... eru orð mánaðarins, að mínu mati.
Óróinn í Mið-Austurlöndum við það að keyra um þverbak. Danskir múslimar
safnast saman til að mótmæla aðförunum og reyna að biðla til Austur-Evrópskra múlima að láta af ofstækiskenndri og ofbeldisfullri hegðun, nú sé komið nóg.
Það er alveg skiljanlegt að múslimum sárni að viðhöfð sé hegðun sem þeim þeim finnst vera guðlast eða þar um bil. Það er líka alveg skiljanlegt að kristnir menn og aðrir sem ekki aðhyllast islam skilji ekki þessa reiði múslima, því myndbirting af spámönnum kristni og fótum/höndum Jahve (guðs gyðinga og kristinna) tíðkast hér eftir behag. Það að láta ekki í minni pokann fyrir tilfinningasemi aðfluttra þjóðfélagshópa er skiljanlegt í ljósi þess að hvert land vill fyrst og fremst viðhalda eigin menningu og eigin siðum, og ætlast til að innflytjendur og þeirra afkomendur aðlagist því þjóðfélagi sem þeir flytjast til. Persónulega finnst mér þetta mjög réttmæt tilætlunarsemi. En auðvitað verður líka að virða siði og venjur aðfluttra, vanalega eru þetta siðir og viðhorf sem liggja djúpt í uppruna fólks og því sem fólk telur rétt verður ekki breytt með einu pennastriki. Virðing fyrir siðum aðfluttra má þó ekki hefta menningu og siði viðtökulandsins á sama hátt og ef maður flytur inn á heimili annarra þá verður maður að fara eftir settum reglum þar á bæ, t.d. getur maður ekki gert þá kröfu að fá að reykja í stofunni á þeim forsendum að því sé maður vanur, eða að slökkt verði á öllum sjónvarps- og útvarpstækjum og umgangi haldið í lágmarki eftir kl. 22:30, því þá fari maður, sem sá aðflutti, að sofa. En auðvitað er í flestum tilvikum hægt að komast að samkomulagi með gagnkvæmri virðingu og tilraunum til skilnings. Það sama gildir um þjóðfélagsbrot.
Það sem mér hefði þótt rétt í stöðunni þegar upp kom sú staða að múslimum sárnaði það að þær myndir sem birtust í
Jótlandspóstinum sýndu múslima sem hryðjuverkamenn og tengdu þeirra helsta spámann við fjöldadráp, hryðjuverk og aðra hegðun sem þykir afar neikvæð á Vesturlöndum, að þeir hefðu mótmælt á yfirvegaðan hátt í fjölmiðlum og að Jótlandspósturinn hefði á móti skýrt sína hlið á málinu, en jafnframt viðurkennt að þeir hefðu ekki áttað sig á þessum menningarárekstri og lofað því að hafa þetta framvegis í huga.
Þegar fólk flyzt búferlum til annara menningarsvæða getur það heldur ekki gengið út frá því sem vísu að viðtökulandið sé alfrótt um siði þess og gildi.
Árið 2000, á afmælisári kristnitökunnar, var goðalíkneskjum kastað í Goðafoss sem táknræn minning þess er Ísland gekkst undir siðbreytingu.
Okkur sem aðhyllumst ásatrú sárnaði sú goðgá, því í okkar huga er þetta ekkert nema guðlast byggt á skilningsleysi og vanhugsun. En ekki fórum við með reiddum hnefum og í bardagahug að brenna kirkjur eða ráðast á presta og guðfræðinema. Við mótmæltum í fjölmiðlum og skýrðum mál okkar, þó líklega hafi sú umræða ekki farið hátt.