Elskum við sápuóperur eða er það goðsögn?
Eins og kannski flestir, þá á ég mér mína uppáhalds sjónvarpsþætti. Flestir þeirra eru leiknir en þó eru einn til tveir sem flokkast líkl. undir raunveruleikasjónvarp.
Fyrrnefndu þættirnir eru Judging Amy, Bráðavaktin, C.S.I. og Law & Order (- SVU, sérstaklega). Hinir síðarnefndu eru Dr. 90210 á stöðinni E! og einhver bráðamóttökuþáttur sem ég rekst stundum á á vappi mínu um sjónvarpsheima, annaðhvort á Reality TV eða Discovery. Allir þessir þættir eiga það sameiginlegt að fjalla um starf og starfsvettvang aðalpersónanna, og mér finnst það æðislegt, jafnvel þó ég geri mér fulla grein fyrir að kannski eru uppákomurnar í leiknu þáttunum uppspuni frá rótum að enda, samsettar og ýktar til að skapa samúð og kveikja á tilfinningaflæðinu og adrenalíninu. Það sem mér finnst óskiljanlegt er allur þessi tími sem fer í einkalíf aðalpersónanna, sérstaklega þegar líða tekur á seríuna. Hverjum er ekki sama þó Amy Gray hagi sér eins og smákrakki í samskiptum við fjölskylduna eða þó bróðir hennar sé í sífelldri persónuleikakrísu og geti ekki skrifað bókina sína? Hverjum er ekki sama hvort þessi eða hinn læknirinn á E.R. sé að slá sér upp með einhverjum kandídat utan vinnutíma? Eða bara almennt hvað þessar persónur eru að gera í sínum einkatíma? Mér finnast C.S.I. og L&O hafa sloppið hvað best út úr þessu. Ég vil bara sjá vinnubrögðin, ég vil sjá hvað gerist á vinnustaðnum og sem mest lítið annað. Því út á það gengur titill þáttanna hefði ég haldið. Annað er með Friends, Sex and the City, Everybody loves Raymond og fleiri þætti. Þeir þættir bera ekki titla sem gefa í skyn neitt annað en persónuleg sambönd við annað fólk og þar væri því væntanlega ekki vel tekið ef sífellt stærra hlutfall hvers þáttar væri tengt starfsvettvangi viðkomandi.
Það versta er að nú virðist þetta vera að smitast yfir á "raunveruleikaþættina". Dr. 90210 er lýtalækningaþáttur og þar er sýnt frá og talað við fólk sem ætlar í lýtaaðgerð hjá einum af x mörgum læknum í Beverly Hills. Áhorfendur fá að fylgjast með því þegar læknirinn skoðar viðkomandi fyrir aðgerð, aðgerðinni sjálfri (hvað er gert, hvað er fjarlægt og allt hvað eina!) og svo endurkomutíma þegar umbúðir eru teknar og breytingin sést. Svo inn á milli koma reglulega skot þar sem sjúklingurinn eða læknirinn segir sitt álit á aðgerðinni (eða fyrirhugaðri aðgerð) og hvað þeim fannst um árangurinn. Gott mál, maður hefur fengið meiri dýpt í málið og nálgast viðfangsefnin persónulega. Allir kátir. En nei, því lýkur ekki þar. Allt of mikill hluti hvers þáttar gengur út á að sýna persónulegt líf læknanna, tala við eiginkonur þeirra og fá þær til að segja frá heimilislífinu og guð-má-vita-hverju. Og nú spyr ég eins og áður: Hverjum er ekki sama hvort Dr. Rey fær sitt 3ja barn eins og hann vill eða hvort hann fær hund í staðinn, eða hvernig eiginkonu einhvers annars læknis tekst að standa sig í tilraunaeldamennsku, eða hvernig brúðkaupsskipulag 4. árs nema gengur fyrir sig? Mannlega hliðin?!? BAH! Maður getur bara sagt sér það sjálfur að þau eigi sína mannlegu hliðar, sorgir og gleði eins og við hin.
Hvað titil færslunnar varðar:
Goðsögn, í íslenskri þýðingu enska orðsins "myth", sem kallast líka mýta. Mér finnst það orð bara ljótt í ritmáli.
1 Álit yðar:
Hummm.... mér finnst einmitt svo skemmtilegt þegar sýnt er frá einkalífinu líka. Mér myndir ekkert finnast varið í E.R. ef þetta væri bara hvert akút tilfellið á eftir öðru... I want to see some lovin and drama :o)
But that's just me!
Skrifa ummæli
<< Home