Lista-líf
Stundum finnst mér eins og líf mitt snúist um skipulag og listaskrif. Og ekkert annað. Þetta er endurtekinn vítahringur sem hefst á því að einhvern daginn ákveð ég að vera óskaplega skipulögð og koma minni nánustu framtíð í gott horf, á skipulagðan hátt. Og ferlið hefst á því að ég sest niður og skrifa lista yfir það sem ég þyrfti að gera, ætla að gera og myndi hagnast á að gera. Í lok dags er ég svo komin með ítarlegan og greinargóðan lista og fer sátt að sofa, fullviss um að "nú sé þetta allt að gerast" og með góðu skipulagi séu mér allir vegir færir. Morguninn eftir vakna ég upp með ítarlegan og ofurlangan lista á náttborðinu. Allt of langan. Svo ég tek til við að endurskipuleggja listann; para saman atriði sem vinna má í tengslum hvort við annað, taka út atriði sem skipta minna máli, raða í hóp litlum atriðum sem hægt er að gera á skömmum tíma og þá jafnvel samtímis og bæta inn öðrum stærri sem mér finnast skipta máli þá stundina en ég hef greinilega gleymt við fyrstu listaskrif. Í lok dags sit ég uppi með ítarlegan, greinargóðan og vel skipulagðan lista - en allt á listanum ógert. En ég tel mér samt trú um að ég verði í góðum málum daginn eftir, því nú sé listinn svo vel skipulagður. Þegar ég svo vakna á þriðja degi ferlisins rennur það upp fyrir mér að listinn er ekki bara ítarlegur, greinargóður og vel skipulagður, heldur líka oooofur-langur. Og það veldur mér kvíða. Hvaða atriði á ég að tækla fyrst? Eitt af þessum stóru? Eða eitthvað af þessum litlu svo að listinn styttist? En þá eru bara stór og mikil og feit og tímafrek og orkutæmandi atriði eftir. Hvað gera bændur þá? Þeir sér kaffi og gera eitthvað allt annað en það sem stendur á listanum til að bægja frá óttanum við allt það sem framundan er.
Þetta er að vísu fremur ýkt lýsing, en svona finnst mér þetta oft vera;
Líf mitt þessa stundina = atriði 1-12, framtíðarfræin = atriði 13 og uppúr.
En það góða við þetta er að þetta ástand á sér heiti og þar af leiðandi skilgreiningu. Sem þýðir að það er að öllum líkindum hægt að sigrast á þessu eða a.m.k. að nýta ástandið sér til framdráttar. Fræðiheitið mun vera framkvæmdafóbía! [Eða e-ð álíka, ég spyr Finnboga út í það við tækifæri, hann nefndi þetta fyrstur manna í mín eyru]. Meðferð gegn slíkri fóbíu byggist á, ótrúlegt en satt, listagerð. Efst skal maður skrifa atriði sem skiptir í raun og veru litlu máli hvað framvindu annara hluta varðar, en lítur engu að síður út fyrir að vera mjög mikilvægt og tímafrekt atriði. Þá munu öll önnur atriði blikna í samanburði og töluverðar líkur eru á því að maður drífi þau af til þess að slá þessu feita og fyrirferðamikla atriði á frest.
Dæmi um slík upphafsatriði gætu verið bílskúrstiltekt; jólaskrautsupphengi /-niðurtekt; skráning á bókaeign; hringja í ömmu og biðja um fyrirframgreiddan arf. Minna máli skiptir hvort maður hafi yfirhöfuð ætlað sér að framkvæma þetta "efsta atriði", svo lengi sem það er nógu fráhrindandi.
Úr dagbókarfærslum Hannesar afa:
miðvikudagur 19. apríl 1922 :
Ms. Goðafoss kom til Hva. kl. ca. 5 árdegis. Fór aftur um kl. 9 árd.
K.V.H. fær 1100 kg strausykur og 6 poka kaffi. Var þegar gerður aðsúgur mikill að vörum þessum.
Veðrið : Sunnan stormur
föstudagur 21. apríl :
Þreifandi sjóð-bullandi vitlaus ös. Allir að sækja kaffi, sykur og tóbak - og beiddu um brennivín - og fleiri nauðsynjar.
Goðafoss sagður á Ísafirði.
Veðrið : Sunnan storum. Þiðnar mikið.
3 Álit yðar:
Ég myndi örugglega klára öll litlu og auðveldu atriðin fyrst svo listinn styttist - ég þoli ekki langa lista :o)
Voru bloggskriftir á listanum þínum :o) ???
Nei, annars hefði ég aldrei bloggað! :-D
Thanks for the best blog.it was very useful for me.keep sharing such ideas in the future as well. Thanks for giving me the useful information. I think I need it!
lennyfacetext.com
Skrifa ummæli
<< Home